Skólareglur

Unnið er að endurskoðun á skólareglum skólaárið 2017-2018 af öllum þeim sem koma að skólasamfélaginu, þ.e. starfsmönnum, nemendum og foreldrum. Þar til gilda þær skólareglur sem hafa verið síðustu ár.

Í Njarðvíkurskóla
- tala allir kurteislega hver við annan,
- koma allir fram af virðingu, umburðarlyndi og sanngirni hver við annan, láta aðra í friði,
- sinna hlutverki sínu og bera ábyrgð á eigum sínum og skóladóti,
- taka allir ábyrgð á orðum sínum og gerðum,
- bera allir virðingu fyrir umhverfi sínu.

Stundvísi
Við komum stundvíslega í skólann, í allar kennslustundir, með þau gögn sem nauðsynleg eru. Foreldrar/forráðamenn tilkynna um veikindi og fjarvistir daglega. Sá sem er stundvís missir ekki af neinu sem fram fer í skólanum. Sá sem kemur of seint truflar vinnu annarra.

Heilbrigðar og hollar lífsvenjur
- Við hugsum vel um heilsu okkar og komum með hollt og gott nesti í skólann.
- Við komum ekki með gosdrykki, sælgæti og tyggjó í skólann. Í sælgæti og sætum gosdrykkjum er mikill sykur sem getur valdið eirðarleysi og æsingi hjá mörgum nemendum.
- Við neytum ekki tóbaks, áfengis eða annarra ólöglegra vímuefna í skólanum eða á skólalóð. Skólinn áskilur sér rétt til að leita að þessum efnum innan skólans, og á ferðum á vegum hans, leiki grunur á að nemendur hafi slíkt í fórum sínum.

Umgengni
- Við förum vel með eigur okkar og skólans, krotum ekki á veggi eða skemmum hluti. Skólinn er vinnustaður okkar og sameign.
- Við notum ekki GSM síma í kennslustundum né á göngum skólans. Sama gildir og um önnur tæki sem geta truflað virkni og vinnu nemenda í námi. Nemendum er óheimilt að taka myndir í skólanum nema með leyfi starfsmanna.
- Við förum úr útiskóm í anddyri, röðum þeim í skóhillur, förum úr yfirhöfnum, tökum af okkur höfuðföt í kennslustundum og á samkomum á sal. Umgengi sýnir innri mann og engum er hollt að sitja kappklæddur inni í skólastofu.
- Við höldum okkur á skólalóðinni í frímínútum. Nemendur eru á ábyrgð skólans á skólatíma og gæslumenn skólans eru á skólalóðinni ef eitthvað ber út af.
- Við virðum eignarétt nágranna okkar sem og annarra og leikum ekki á lóðum þeirra né á bílastæði skólans sem er hættulegur staður og því ekki leiksvæði.
- Við höfum ekki meðferðis eldfæri, hnífa, eða aðra oddhvassa hluti í skólann og ofbeldi er ekki liðið í skólanum.
- Stríðni og einelti eru neikvæð samskipti, spilla friði, valda særindum og vanlíðan og er því ekki liðið í skólanum.

Skólareglurnar gilda hvar sem nemendur eru á vegum skólans, í kennslu, á skólaskemmtunum, á skólalóð, vettvangsferðum, í félagsstarfi og á ferðalögum.