Einelti

Í Njarðvíkurskóla starfar eineltisteymi eftir eineltisáætlun skólans. Forvarnarverkefnið Stöndum saman var innleitt í kennslu en verkefnið er í anda PBS agastefnunnar. Innleiðing á þessu verkefni hófst haustið 2011. Í eineltisteyminu eru stjórnendur, námsráðgjafi auk kennara. Starfsfólk Njarðvíkurskóla lýsir því yfir að hvorki einelti né annað ofbeldi verði liðið í skólanum. Leitað verður allra ráða til að fyrirbyggja einelti og ofbeldi og til að leysa þau mál sem upp koma á farsælan hátt. Njarðvíkurskóli á að vera öruggur vinnustaður þar sem starfið mótast af virðingu, ábyrgð og vinsemd.

Þegar upp koma eineltismál í skólanum þá leitar teymið sameiginlega leiða við vinnu við málin. Eineltisteymið vinnur eftir ákveðinni áætlun sem felur í sér að brugðist verði við svo fljótt sem verða má. Teymið kannar hvort grunur um einelti sé á rökum reistur samkvæmt skilgreiningu skólans og vinnur í málinu til að byrja með. Á heimasíðu skólans er tilkynningarblað og geta foreldrar, umsjónarkennari eða aðrir sem koma að skólasamfélaginu tilkynnt mál til skólastjóra sem fer yfir málið með tilkynnanda og leggur málið fyrir eineltisteymi skólans. Eineltisteymið vinnur eftir ákveðnum verkferlum eru aðgengilegir á heimasíðu skólans.

Eineltisteymið tekur tilvísun eineltismáls til umræðu á fundi. Þar er málið skoðað og fer það eftir eðli þess og vexti til hvaða aðgerða er gripið. Ákveðnum fulltrúum eineltisráðs eða öðrum í starfsliði skólans er falin umsjón með áframhaldandi vinnu. Eineltisteymið fylgist með framgangi málsins. Gangi ekki að uppræta eineltið innan veggja skólans er leitað til sérfræðinga á Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.

Allir í skólasamfélaginu hafa hlutverk þegar kemur að líðan nemenda. Lögð er mikil áhersla á að allir starfsmenn skólans, nemendur og foreldrar séu vakandi fyrir líðan og velferð nemenda. Mikilvægt er að allir séu vakandi fyrir einelti og komi vitneskju um það sem allra fyrst til umsjónarkennara eða skólastjórnenda ef þörf þykir. Fyllsta trúnaðar skal gætt við meðferð eineltismála.

Nánar um vinnuferli Njarðvíkurskóla í eineltismálun.