Námsmat

Í Njarðvíkurskóla er lögð áhersla á að kennarar beiti fjölbreyttum aðferðum við kennslu og námsmat. Nemendum þarf að vera ljóst hvaða hæfniviðmið verið er að meta hverju sinni og við hvaða matskvarða hæfniviðmiðin tengjast. Leitast er við að byggja námsmat í skólanum sem mest á leiðsagnarmati, sem metur fjölbreytta hæfni nemenda til lengri tíma. Nemendur og foreldrar eiga jafnt og þétt yfir skólaárið að fá reglulegar og skýrar upplýsingar um það sem nemendur kunna eða geta á hverjum tíma. Með þessum hætti er lögð áhersla á að bæði nemendur og foreldrar fái tilfinningu fyrir því sem hefur áunnist og hvert viðkomandi nemandi stefnir. Í skólanum er áhersla á hæfnihugsun þar sem unnið er að einstaklingsmiðuðu námi, fjölbreyttum kennsluháttum og vel skilgreindu námsmati.

Á heimasíðu Njarðvíkurskóla að finna bekkjarnámskrár hvers námshóps. Þar koma fram hæfniviðmið sem þjálfuð eru í námsgrein, kennsluaðferðir og námsmat auk upplýsinga um námsgögn, tímafjölda í fagi og nafn kennara. Á Mentor eru námskrár fyrir öll fög sem unnar eru upp úr bekkjarnámskrám og kennarar meta jafnt og þétt yfir skólaárið.

Í öllum námsgreinum þurfa kennarar að styðjast við og meta hæfniviðmið. Það er gefið fyrir hæfniviðmið með fimm tákna kvarða (framúrskarandi hæfni – hæfni náð – á góðri leið – þarfnast þjálfunar – hæfni ekki náð). Lögð er áhersla ef þess er kostur á að setja skýringu og/eða umsögn með mati á hæfniviðmiði í umsagnardálk.

Þegar verkefni eru metin er námsmat gefið með bókstöfunum A,B+,B,C+,C og D eða lokið/ólokið. Verkefni geta verið munnleg verkefni, verkleg og skrifleg, myndræn, stuttar afmarkaðar æfingar og dýpri athuganir, einstaklingsverkefni og hópverkefni, verkefni sem unnin eru á afmörkuðum tíma og óafmörkuðum og próf af ýmsu tagi.

Nemandi í sértæku námsmati vinnur eftir einstaklingsáætlun og þar að leiðandi með önnur hæfniviðmið en aðrir nemendur í árgangi (fer eftir innihaldi einstaklingsnámskrár nemandans). Foreldrar skulu ávallt vera upplýstir um að barnið þeirra er í sértæku námsmati og skrifa undir einstaklingsáætlun barnsins áður en námsmat er birt.

Ef nemandi er í leyfi eða veikur þegar hann á að sýna fram á ákveðna hæfni (t.d. með því að þreyta próf/könnun eða skila verkefni) þá fær hann tækifæri til að sýna hæfnina síðar (t.d. með sjúkraprófi eða skila verkefni þegar hann mætir á ný í skólann). Skráning sjúkraprófa er hjá skrifstofustjóra.

Námsmat í 10. bekk

Í aðalnámskrá grunnskóla eru sett fram matsviðmið fyrir 10. bekk fyrir námsgreinar og námssvið. Matsviðmið eru lýsing á, hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni, á valdi sínu.

Matsviðmið lýsa hæfni á kvarða, notaður er kvarðinn:

Matsviðmið í B eru byggð á hæfniviðmiðum í aðalnámskrá og framsetning þeirra er með þeim hætti, að gera má ráð fyrir að þorri nemenda nái þeirri hæfni sem þar er tilgreind. A fá þeir sem sýna framúrskarandi hæfni og C fá þeir sem ekki standast fyllilega þær kröfur sem gerðar eru í B viðmiðum. Ekki eru sett viðmið fyrir D, því sá vitnisburður er notaður þegar nemandi uppfyllir ekki kröfur sem gerðar eru í C viðmiðum. Skóli gerir þá sérstaka grein fyrir hæfni viðkomandi nemanda. B+ og C+ fá nemendur þegar þeir hafa náð að hluta þeim viðmiðum sem lýst er í aðalnámskránni. Ekki verða útbúin matsviðmið fyrir B+ og C+ heldur gildir það að sá sem hefur náð meginþorra B matsviðmiða og náð einstökum þáttum í A getur fengið B+ og sá sem hefur náð meginþorra C matsviðmiða og einstökum þáttum í B getur fengið C +. A þýðir þannig ekki að nemandinn hafi getað t.d. 80% af verkefninu eða prófinu heldur að hann hafi getað leyst þau verkefni eða prófhluta sem kölluðu á flóknari hæfni en hin. Þennan matskvarða er skólum skylt að nota við brautskráningu nemenda úr 10. bekk.