Öryggis- og slysavarnir

Slys á skólatíma
Öryggi nemenda í skólum skiptir miklu máli. Það er því lögð áhersla á að allir starfsmenn fái þjálfun í öryggismálum. Allir starfsmenn fá reglulega þjálfun í skyndihjálp. Þannig læra starfsmenn hvernig bregðast á við þegar slys ber að höndum. Einnig þarf að tryggja öryggi í skólahúsnæði og á skólalóð. Veitt er fyrsta hjálp í skólanum og minni háttar slysum sinnt. Þurfi nemandi að fara á heilsugæslustöð skulu foreldrar fara með barninu. Slys eru skráð í skólanum. Mikilvægt er að skólinn hafi öll símanúmer skráð á Mentor svo hægt er að ná í foreldra á skólatíma barnsins. Ekki er ætlast til að óhöppum sem gerast utan skólatíma sé sinnt í skólanum. Ef barn er með greindan alvarlegan sjúkdóm sem getur stefnt heilsu eða lífi þess í bráða hættu er nauðsynlegt að skólaheilsugæsla viti af því. Hér er átt við sjúkdóma eins og t.d. sykursýki, bráðaofnæmi, flogaveiki og blæðingarsjúkdóma.

Tryggingar skólabarna
Öll skólabörn eru tryggð hjá Tryggingamiðstöðinni (TM) hvort sem það eru líf-, örorku- eða slysatryggingar á meðan þau eru á ábyrgð skólans á skólatíma, s.s. á skólalóð eða í ferðum á vegum skólans. Gera skal skýrslu um öll óhöpp sem verða og senda TM til varðveislu. Foreldrum er bent á að senda TM reikninga sem verða til vegna áverka eða slysa sem börn verða fyrir. TM mun að greiða viðkomandi sjúkrakostnað enda er skýrslan í þeirra höndum.

Rýmingaráætlun
Í Njarðvíkurskóla er brunaviðvörunarkerfi og er rýmingaráætlun og teikningar af henni í öllum stofum skólans. Rýming er æfð árlega en Brunavarnir Suðurnesja sjá um að rýmingu þriðja hvert ár. Ef brunaviðvörunarkerfi fer í gang kannar umsjónarmaður skóla og/eða skólastjórnandi hvaðan brunaboðið kemur. Ef ekki er slökkt á brunaboðanum innan tveggja mínútna eiga allir að yfirgefa bygginguna. Rýming er alltaf undirbúin um leið og heyrist í brunaboðanum. Skólastjórnandi og/eða umsjónarmaður skóla hefur samband við slökkviliðið í síma 112 ef boð hefur ekki borist til Securitas um brunaboð. Ef um falsboð er að ræða er slökkt á brunavælum sem gefur til kynna að hættuástand sé liðið hjá.

Kennarar/starfsmenn undirbúa rýmingu kennslustofu/rýmis síns og fara eftir ákveðnum leiðbeiningum sem eru í öllum rýmum. Teikningar af útgönguleiðum eru í öllum rýmum skólans. Nemendur yfirgefa ekki kennslustofuna fyrr en kennari/starfsmaður hefur kannað hvort útgönguleiðin er greið. Hver kennari/starfsmaður er ábyrgur fyrir þeim bekk/nemendahóp sem hann er að kenna/sinna þegar hættuástand skapast og þegar stofa er yfirgefin þarf hann að muna eftir nafnalista Ætíð skal velja þann neyðarútgang sem næstur er samkvæmt leiðbeiningum eða sem er greiðastur.

Nemendur ganga út eftir kennara og sá nemandi/starfsmaður sem síðastur fer út úr kennslustofum/ rýmum skal loka vel öllum hurðum á eftir sér til að draga úr reykflæði um húsið. Athugið að ekki má læsa hurðum. Kennari/starfsmaður fer fyrir nemendum út.

Þegar komið er út á söfnunarsvæðið, fótbolta- og körfuboltavellina, er mjög mikilvægt að nemendur standi í einfaldri röð á sínu svæði hjá kennara sínum sem fer yfir nafnalistann og kannar hvort allir séu komnir út.

Umsjónarmaður skóla kemur lyklum af skólanum til varðstjóra og sér um að athuga hvort allt starfsfólk sé komið út á söfnunarsvæði hjá ritara skólans og aðstoðarskólastjóri/deildastjórar athugar hvort allir kennarar séu komnir út. Ef einhvern vantar afla þeir upplýsinga um það hvar viðkomandi sást síðast í byggingunni og lætur varðstjóra slökkviliðsins vita.

Deildastjórar fara á milli hópa og fá upplýsingar um stöðu mála í nemendahópum og upplýsa skólastjóra um stöðu mála. Skólastjóri eða staðgengill hans er tengiliður við slökkviliðið.

Slökkviliðið kemur á staðinn. Skólastjórnandi /umsjónarmaður gefur varðstjóra upplýsingar um stöðuna. Í samráði við Brunavarnir Suðurnesja bíða nemendur síðan í íþróttahúsi þar til hættan er liðin hjá. Slökkviliðið stýrir aðgerðum og enginn fer inn í bygginguna fyrr en varðstjóri slökkviliðsins hefur gefið skólastjóra eða staðgengli hans leyfi til að hleypa fólki aftur inn.

Jarðskjálftar
Jarðskjálftar gera sjaldnast boð á undan sér og því nauðsynlegt að gera öryggisráðstafanir fyrirfram og læra rétt viðbrögð. Hægt er að draga verulega úr hættu ef komið er í veg fyrir að þungir hlutir falli á starfsfólk og börn. Því þarf að tryggja að hillur festar við vegg.

Við jarðskjálfta getur verið hættulegt að hlaupa út úr byggingu. Leita skal skjóls og vera kyrr á öruggum stað innandyra, t.d. út í horni við burðarveggi fjarri gluggum. Viðbrögð við jarðskjálfta ættu að vera:
- Krjúpa, skýla höfði og halda sér í eitthvað ef ekki er unnt að komast á opið svæði.
- Fara út í horn burðarveggja, KRJÚPA, SKÝLA höfði og HALDA sér ef unnt er.
- Fara í hurðarop, KRJÚPA, SKÝLA höfði og HALDA sér.
- Fara undir borð, KRJÚPA, SKÝLA höfði og HALDA í borðfót.
Almannavarnadeild Ríkislögreglustjórans hefur gefið út leiðbeiningar um Viðbrögð við jarðskjálfta.

Umferð við skólann

Bílaumferð við skólann
Til að tryggja öryggi barna í skólanum eru foreldrar hvattir til að aka varlega við skólann og nota hringaksturinn við Brekkustíg eða stöðva við gangstéttar við Norðurstíg í öryggisskyni. Ekki er heimilt að keyra inn á bílastæði starfsfólks við íþróttahúsið til að skutla nemendum eða sækja í skólann. Sýna þarf nágrönnum skólans og börnum sem ganga til skóla tillitssemi og aka varlega í nágrenni við skólann. Foreldrar eru hvattir til að stilla umferð bifreiða um skólasvæðið í hóf og hvetja börn sín til að ganga eða hjóla í skólann. Nauðsynlegt er að foreldrar finni með börnum sínum bestu og öruggustu leiðina í skólann. Nemendur eru hvattir til að vera með endurskinsmerki svo ökumenn eigi auðveldara með að sjá þá í skammdeginu. Reykjanesbær efnir til umferðar- og öryggisátaks á hverju hausti og er markmiðið að vekja almenning til umhugsunar um umhverfið sitt og umferðarmenningu í víðasta skilningi. Sérstök áhersla er lögð á mikilvægi þess að skapa meira öryggi fyrir unga vegfarendur á leið í skólann.

Hjólreiðar við skólann
Nemendum sem koma á hjólum í skólann ber að fara eftir siðum skólans og geyma þau læst í hjólagrindum á skólatíma. Nemendur eiga að nota hjólahjálma og virða allar öryggisreglur sem gilda um hjól. Sama gildir um það ef nemendur koma á hjólabrettum, hlaupahjólum eða línuskautum. Í frímínútum mega nemendur nota hjólabretti á ákveðnu svæði á skólalóðinni ef þeir eru með hjálma. Nemendur bera sjálfir ábyrgð á hjólum sínum og öðrum munum sem þeir koma með í skólann. Athygli er vakin á því að samkvæmt umferðarlögum er ekki mælt með því að börn yngri en 13 ára séu á rafdrifnum hjólum.

Óveður
Þegar veðurspár gefa til kynna að óveður sé í aðsigi á Suðurnesjum fylgjast Lögreglan og Almannavarnir gaumgæfilega með, hafa samstarf við skólana og gefa út viðvaranir til almennings, gerist þess þörf. Mikilvægt er að foreldrar sjálfir fylgist með veðri og veðurspám og hagi sér í samræmi við aðstæður hverju sinni. Foreldrar leggja sjálfir mat á hvort fylgja þarf barni í og úr skóla þótt engin tilkynning hafi borist frá yfirvöldum. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla þá skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlileg forföll. Við slíkar aðstæður eru skólarnir opnir og þar er öruggt skjól fyrir börnin. Meti foreldrar aðstæður svo að ekki sé óhætt að börn þeirra sæki skóla skulu þeir tilkynna skólanum um það og lítur skólinn á slík tilvik sem eðlilega fjarvist. Sama gildir ef börn eða foreldrar lenda í vandræðum á leið sinni til skóla og verða frá að hverfa. Einnig er áhersla lögð á að skólarnir sjái til þess að alltaf verði einhver starfsmaður í skólunum til að taka á móti börnum sem mæta þrátt fyrir að send hafi verið út tilkynning um að skólahald falli niður.

Viðbrögð við óveðri - á íslensku og pólsku

Almannavarnaáætlun
Viðbragðsáætlun segir fyrir um skipulag og stjórn aðgerða í Njarðvíkurskóla, í samræmi við áætlun Almannavarna um viðbrögð við heimsútbreiðslu inflúensu. Markmið viðbragðsáætlana skóla er að tryggja skipulögð og samræmd viðbrögð allra skólastofnana sem og starfsmanna þeirra ef til inflúensufaraldurs kemur. Við gerð áætlunarinnar er meðal annars stuðst við lög um almannavarnir nr. 82/2008 og lög um sóttvarnir nr. 19/1997. Áætlunin er í samræmi við Landsáætlun vegna heimsfaraldurs inflúensu.

Verkefnisstjórn vegna viðbragðsáætlunar er í höndum stjórnenda skólans. Skólastjóri ber ábyrgð á gerð hennar, uppfærslu og virkjun. Aðstoðarskólastjóri/deildarstjóri eða trúnaðarmenn á vinnustaðnum bera ábyrgð á virkjun áætlunarinnar í forföllum skólastjóra og hafa samstarf við skólahjúkrunarfræðing/Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.

Skólastjórnendur upplýsa starfsmenn skólans, á starfsmanna- og kennarafundum, um inflúensuna útbreiðsluleiðir og hvernig draga megi úr smitleiðum. Foreldrar og nemendur fá upplýsingar frá stjórnendum og skólahjúkrunarfræðingi gegnum heimasíðu skólans og með fjölpósti í gegnum Mentor. Fjölskyldur sem ekki hafa aðgang að tölvu fá dreifibréf með nauðsynlegum upplýsingum. Tenglar verða á heimasíðu skólans þar sem finna má gagnlegar upplýsingar s.s. www.almannavarnir.is og á www.influensa.is

Skólastjóri fer yfir verkferla í ræstingu með umsjónarmönnum í upphafi skólaárs. Samráð verður haft við skólahjúkrunarfræðing /HSS og þessir aðilar sjá um að útvega hlífðarbúnað. Foreldrar verða hvattir til að halda börnum sínum heima eins og tilmæli sóttvarnarlæknis gefa til kynna. Ef nemandi veikist í skólanum og þarf að komast heim verður foreldrum gert að sækja barnið. Umsjónarkennarar og skrifstofustjóri sjá um að hringt sé heim til aðstandenda í slíkum tilfellum.

Veikist skólastjóri tekur aðstoðarskólastjóri, deildarstjóri eða trúnaðarmenn í skólanum við stjórn. Komi til lokunar skóla skal skólastjóri og aðstoðarskólastjóri auglýsa lokun skóla. Það skal gert á eftirfarandi hátt: Á heimasíðu skóla, á heimasíðu Reykjanesbæjar, á Facebook síðu skólans, haft verður samband við alla starfsmenn, sendur verður póstur til allra aðstandenda á Mentor og hringt í þá sem ekki hafa netföng, skrifleg auglýsing sett á alla innganga skólans, nemendur með annað tungumál en íslensku, og aðstandendur þeirra, fá sérstakar leiðbeiningar með aðstoð túlka. 

Viðbragðsáætlun vegna sóttvarna fyrir Njarðvíkurskóla (frá 2009-2010)

Viðbrögð við óveðri - á íslensku og pólsku