Stefna og sýn Njarðvíkurskóla

Einkunnarorð Njarðvíkurskóla eru menntun og mannrækt.

Menntun
Við kappkostum að uppfylla ákvæði Aðalnámskrár grunnskóla um almenna menntun sem eina meginstoð lýðræðis, undirstöðu menningar og almennrar velferðar. Í samvinnu við heimilin, viljum við búa nemendur undir líf og starf í lýðræðislegu þjóðfélagi, dýpka skilning og læsi þeirra á samfélaginu og hlutverki einstaklingsins í því.

Mannrækt
Við viljum finna og rækta hæfileika sérhvers nemanda svo hann nái að þroskast og mótast af gildum lýðræðislegs samstarfs sem einkennist af lýðræði, mannhelgi, réttlæti og félagsanda, virðir mismunandi einstaklinga og leyfir einkennum þeirra að njóta sín.

Markmið
Markmið okkar eru að öllum nemendum líði vel í skólanum og góð samvinna takist milli heimila og skóla. Unnið er eftir agastefnunni Stuðningur við jákvæða hegðun þar sem nemendur fá kennslu í væntingum til hegðunar, væntingar eru skilgreindar í  reglufylki og nemendum er hrósað þegar vel tekst til. Markmið með agastefnunni er að skapa jákvæða skólamenningu þar sem nemendum líður vel og þeir hafa tækifæri til að tileinka sér þá þekkingu, leikni og hæfni sem býr þá undir nám að loknum grunnskóla.

Markmið okkar eru ennfremur að nemendur:
- læri að bera ábyrgð á eigin námi
- verði sjálfstæðir í vinnubrögðum og geti valið sér verkefni eftir áhugasviði
- geti nýtt sér tölvu- og upplýsingatækni í vinnu sinni
- þjálfi félagsfærni sína í samvinnu við aðra nemendur og kennara
- fái tækifæri til að takast á við fjölbreytt verkefni og vinna með margskonar efnivið í samvinnu við aðra nemendur og kennara
- verði færir um að meta stöðu sína í námi
- verði færir um að meta vinnu sína og samnemenda á gagnrýninn og jákvæðan hátt
- læri að taka ábyrgð á orðum sínum og gerðum og temji sér sjálfsaga
- læri að tjá sig um skoðanir sínar og líðan án þess að særa aðra eða að ganga á rétt annarra
- beri virðingu fyrir umhverfi sínu

Leiðir
Með því að:
- leggja rækt við það góða í manneskjunni
-  sýna umburðalyndi
- bera virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum
- leggja áherslu á jákvæðan aga
- leggja áherslu á einstaklingsmiðað nám m.a. með samvinnu, þemavinnu, blöndun hópa og flæðis milli námsgreina
- skipuleggja námið með mismunandi yfirferð námsefnis á misjöfnum tíma til að mæta hverjum nemenda þar sem hann er staddur
- nemendur taki þátt í að setja sér raunhæf markmið í samvinnu við kennara og foreldra
- nemendur taki þátt í að meta vinnu sína og verk
- vekja áhuga og virðingu nemenda fyrir umhverfinu sínu með öflugri umhverfismennt
- efla kennslu í lífsleikni alla skólagönguna
- þjálfa tjáningu og framsögn