Áfallaáætlun

Í áfallahaldbók Njarðvíkurskóla er áætlun um hvernig bregðast skuli við áföllum og slysum. Áfallateymi er starfandi í skólanum og fer skólastjóri fyrir teyminu. Hlutverk áfallateymis er að sjá um að nemendur og starfsfólk skólans fái viðeigandi þjónustu ef þeir verða fyrir áfalli, bæði við áfallið og á eftir þegar viðkomandi kemur aftur til starfa/í skólann. Áfallateymi sér einnig um fræðslu til starfsfólks um viðbrögð við slysum og áföllum. Sjúkrakassar eru hjá gangavörðum, skrifstofustjóra og í sérgreinastofum s.s. heimilisfræði- og smíðastofu. Einnig eru sjúkrakassar í sérdeildum skólans Ösp og Björk. Handbækur um viðbrögð við slysum og áföllum eru hjá skrifstofustjóra, deildastjórum og skólastjóra.

Kynferðisleg misnotkun og ofbeldi gagnavart nemanda
Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum: „Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglum um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta”. Barnaverndarlög nr. 80/2002 17. gr.

Tilkynnt er um kynferðislega misnotkun og ofbeldi gagnvart nemanda til barnaverndarnefndar af skólastjóra í nafni stofnunarinnar á þar til gerðum eyðublöðum. Ef um er að ræða grun um ofbeldi, kynferðislegt eða líkamlegt, er ekki rætt við barnið um það heldur haft strax samband við barnaverndarnefnd. Það er síðan hlutverk barnaverndarstarfsmanna að kanna málið og ræða við barnið eftir þeim reglum sem um það gilda. Þegar grunur hefur vaknað um að barn búi við ofbeldi á heimili sínu, hvort heldur sem er líkamlegt eða kynferðislegt hefur skólinn beint samband við barnaverndarnefnd án þess að upplýsa foreldra um það. Ástæðan er sú að búi barn með einhverjum sem beitir ofbeldi getur verið hætta á að barnið verði beitt enn meira ofbeldi eða hótunum ef viðkomandi veit að tilkynnt hefur verið til barnaverndarnefndar. Í sumum tilvikum sæta þessi mál einnig lögreglurannsókn og mikilvægt er að meintur gerandi fái ekki tækifæri til að hafa áhrif á framburð barnsins. Komi barn með sýnilega áverka í skóla eða segi frá ofbeldi skal samstundis hafa samband við barnaverndarnefnd.