Vímuefni, kynheilbrigði og netnotkun

Samkvæmt Aðalnámsskrá grunnskóla frá árinu 2011 er Heilbrigði og velferð nú einn af sex grunnþáttum menntunar. Njarðvíkurskóli fræðir og styður nemendur til heilbrigðra lífs- og neysluhátta. Nemendur fá fræðslu um skaðsemi notkunar á hvers kyns vímuefnum. Fræðslan miðast við aldur barnanna og þær hættur sem helstar eru á hverjum tíma. Markmið með forvörnum er að efla sjálfstraust og sjálfsmynd nemenda þannig að þeir verði betur undirbúnir til að taka mikilvægar ákvarðanir í lífinu. Foreldrar og starfsmenn fá einnig slíka fræðslu og ráðgjöf ef þörf er talin á.

Forvarnarfræðsla gegn tóbaksnotkun, áfengisnotkun eða annarri ávanabindandi hegðun og neyslu ásamt forvörnum er tengjast kynfræðslu er fléttuð inn í námsefni í lífsleikni og er því stöðugt í umræðunni. Nemendur í 9. bekk taka þátt í forvarnardeginum hvert ár.
Nemendur fá reglulega heimsóknir manna sem sérhæfa sig í slysavörnum s.s. um meðferð flugelda og slökkviliðsmenn heimsækja 3. bekk í eldvarnarviku í byrjun desember. Þá koma lögreglumenn sem sinna öryggismálum í umferðinni og fræða nemendur og lögreglumenn sem sinna fíknefnamálum ræða við nemendur. Auk þess höfum við reglulega fengið til okkar Maritaverkefnið fyrir nemendur sem er forvarna- og fræðsluverkefni gegn fíkniefnum.

Í Njarðvíkurskóla leikhópar og farið er á leiksýningar sem eru með forvarnarboðskap. Tekið er þátt í forvarnar- og uppbyggingarstarfi með foreldrafélaginu með því t.d. að fá fyrirlesara á fundi með foreldum og nemendum. Foreldrafélagið og önnur félög í grenndarsamfélagi skólans styrkja á hverju ári verkefni er tengjast forvörnum.

Vímuefni
Njarðvíkurskóli vinnur samkvæmt forvarnarstefnu Reykjanesbæjar en meginmarkmið hennar er að skapa aðstæður sem eru líklegar til að hafa jákvæð áhrif og efla sjálfstraust og sjálfsmat barna og ungmenna.

Markmiðið er að styrkja sjálfsmynd og sjálfstraust nemenda svo þeir geti tekið afstöðu gegn vímuefnum og staðið á móti neikvæðum félagslegum þrýstingi. Að vinna markvisst gegn einelti og öðrum félagslegum vandamálum. Að fræða nemendur um skaðsemi vímuefna og stuðla að hollum lífsháttum. Að skólinn verði vímuefnalaus, nemendur neyti ekki tóbaks, áfengis eða annarra vímuefna. Að eiga öflugt samstarf við foreldra, ráðgjafa fræðsluskrifstofu, félagsmiðstöð, heilsugæslu, félagsþjónustu og lögreglu um samræmdar aðgerðir gegn neyslu og fíknihegðun.

Lögð er áhersla á að reglusemi, útivist ungmenna og vímuefnalaus grunnskóli verði ætíð rædd á kynningarfundum umsjónarkennara og foreldra að hausti. Fylgja þarf fast eftir banni við neyslu hvers kyns vímuefna í skóla, á skólalóð og í skólaferðalögum. Aðstoða þarf nemendaráð skólans við uppákomur þar sem nemendur geta skemmt sér hver með öðrum án þess að vímuefni komi við sögu. Stuðla að námi/kennslu við hæfi hvers einstaklings til að sjálfsmynd hans styrkist. Stuðla að góðum og reglulegum samskiptum nemenda við skólahjúkrunarfræðing og námsráðgjafa í skólanum. Veita nemendum, foreldrum þeirra, kennurum og öðru starfsliði viðeigandi ráðgjöf. Bjóða árlega upp á fræðslu fyrir foreldra í samráði við foreldrafélög, félagsmiðstöðvar, félagsþjónustu, heilsugæslu og lögreglu.

Kynheilbrigði
Nemendur fá fræðslu og kynningar um kynfræðslu á unglingastigi en fastar kynningar eftir árgöngum eru eftirfarandi:

6. bekkur
Skólahjúkrunarfræðingur kemur með fræðslu til nemenda að vori og nemendur fá bækling með sér heim til að ræða við foreldra. Nemendum er kynjaskipt í þessari fræðslu. Einnig fá nemendur kynfræðslu í náttúrufræðitímum í tengslum við námsefnið Maðurinn – hugur og heilsa.
8. bekkur
Kynfræðsla í tengslum við námsefnið í náttúrufræði „Um stelpur og stráka“.
9. bekkur
Nemendur fá fræðslu um kynsjúkdóma þegar farið er í viðfangsefnið um veirur og bakteríur. Hjúkrunarfræðingur kemur inn í kynfræðsluna í 9. bekk og ræðir við nemendur í kynjaskiptum hóp um helstu atriði og svara þeim spurningum sem brennur á þeim. Jafnframt er farið inn á mikilvægi hreinlætis.
10. bekkur
Kynfræðsla í tengslum við námsefnið Mannslíkaminn. Umræður um mismunandi kynhneigð og kynvitund.

Netnotkun
Í Njarðvíkurskóla er lögð áhersla á að kenna nemendum ábyrga netnotkun. Netheimurinn er í dag stór hluti af daglegu lífi barna og er nú vettvangur bæði náms og samskipta og býður upp á vaxtarmöguleika af ýmsu tagi. Mikilvægt er fyrir skóla að setja sér markalínur um netnotkun sem fylgt er eftir í daglegu starfi. Einnig er mikilvægt að fræða bæði börnin og foreldra þeirra um þær hættur sem leynast á netinu og um ofnotkun á tölvum. Í öllum árgöngum er fjallað um ábyrga hegðun við notkun á netinu og í samskiptum þar. Ef nemandi verður uppvís að óábyrgri netnotkun er tekið á málinu í samræmi við verklag skólans varðandi hegðunarbrot. Foreldrar eru í flestum málum upplýstir um slík brot. Jákvæð netnotkun er nýtt til góðra verka og neikvæð notkun er stöðvuð og leiða leitað til að koma málum í betri farveg. Starfsfólk leitar markvisst til sálfræðinga og annarra aðila sem vinna að lausnum fyrir þá einstaklinga sem ofnota netið og missa fótanna vegna þessa. Áhersla er lögð á að starfsmenn, jafnt sem nemendur, fái reglulega fræðslu um strauma og stefnur í netnotkun ungmenna þannig að þeir viti hverju ástæða er til að fylgjast með, hvar hættur geta legið og hvernig best sé að bregðast við.