Brunaæfing í Njarðvíkurskóla

Frá brunaæfingu í september 2020.
Frá brunaæfingu í september 2020.

Rýmingaráætlun Njarðvíkurskóla var æfð í dag. Um var að ræða æfingu sem nemendur og starfsmenn vissu af og því kom það þeim ekki á óvart þegar brunakerfi skólans fór í gang kl. 12:50.

Æfingin gekk mjög vel og allir nemendur og starfsmenn skólans söfnuðust saman á ákveðnum stöðum samkvæmt rýmingaráætlun skólans.

__________________________________
Rýmingaráætlun Njarðvíkurskóla
Í Njarðvíkurskóla er brunaviðvörunarkerfi og er rýmingaráætlun og teikningar af henni í öllum stofum skólans. Rýming er æfð árlega en Brunavarnir Suðurnesja sjá um að rýmingu þriðja hvert ár. Ef brunaviðvörunarkerfi fer í gang kannar umsjónarmaður skóla og/eða skólastjórnandi hvaðan brunaboðið kemur. Ef ekki er slökkt á brunaboðanum innan tveggja mínútna eiga allir að yfirgefa bygginguna. Rýming er alltaf undirbúin um leið og heyrist í brunaboðanum. Skólastjórnandi og/eða umsjónarmaður skóla hefur samband við slökkviliðið í síma 112 ef boð hefur ekki borist til Securitas um brunaboð. Ef um falsboð er að ræða er slökkt á brunavælum sem gefur til kynna að hættuástand sé liðið hjá.

Kennarar/starfsmenn undirbúa rýmingu kennslustofu/rýmis síns og fara eftir ákveðnum leiðbeiningum sem eru í öllum rýmum. Teikningar af útgönguleiðum eru í öllum rýmum skólans. Nemendur yfirgefa ekki kennslustofuna fyrr en kennari/starfsmaður hefur kannað hvort útgönguleiðin er greið. Hver kennari/starfsmaður er ábyrgur fyrir þeim bekk/nemendahóp sem hann er að kenna/sinna þegar hættuástand skapast og þegar stofa er yfirgefin þarf hann að muna eftir nafnalista Ætíð skal velja þann neyðarútgang sem næstur er samkvæmt leiðbeiningum eða sem er greiðastur.

Nemendur ganga út eftir kennara og sá nemandi/starfsmaður sem síðastur fer út úr kennslustofum/ rýmum skal loka vel öllum hurðum á eftir sér til að draga úr reykflæði um húsið. Athugið að ekki má læsa hurðum. Kennari/starfsmaður fer fyrir nemendum út.
Þegar komið er út á söfnunarsvæðið, fótbolta- og körfuboltavellina, er mjög mikilvægt að nemendur standi í einfaldri röð á sínu svæði hjá kennara sínum sem fer yfir nafnalistann og kannar hvort allir séu komnir út.

Umsjónarmaður skóla kemur lyklum af skólanum til varðstjóra og sér um að athuga hvort allt starfsfólk sé komið út á söfnunarsvæði hjá ritara skólans og aðstoðarskólastjóri/deildastjórar athugar hvort allir kennarar séu komnir út. Ef einhvern vantar afla þeir upplýsinga um það hvar viðkomandi sást síðast í byggingunni og lætur varðstjóra slökkviliðsins vita.

Deildastjórar fara á milli hópa og fá upplýsingar um stöðu mála í nemendahópum og upplýsa skólastjóra um stöðu mála. Skólastjóri eða staðgengill hans er tengiliður við slökkviliðið.

Slökkviliðið kemur á staðinn. Skólastjórnandi /umsjónarmaður gefur varðstjóra upplýsingar um stöðuna. Í samráði við Brunavarnir Suðurnesja bíða nemendur síðan í íþróttahúsi þar til hættan er liðin hjá. Slökkviliðið stýrir aðgerðum og enginn fer inn í bygginguna fyrr en varðstjóri slökkviliðsins hefur gefið skólastjóra eða staðgengli hans leyfi til að hleypa fólki aftur inn.