Fréttir

Starfsáætlun Njarðvíkurskóla 2025-2026

Starfsáætlun fyrir Njarðvíkurskóla, Björk og Ösp skólaárið 2025-2026 var samþykkt af skólaráði 22. október 2025 og í menntaráði Reykjanesbæjar 14. nóvember 2025. Samkvæmt 29 gr. grunnskólalaga ber hverjum grunnskóla að gefa út skólanámskrá og starfsáætlun. Skólastjóri er ábyrgur fyrir gerð þeirra og skal semja þær í samráði við kennara. Skólanámskrá er nánari útfærsla á Aðalnámskrá grunnskóla um markmið, inntak náms og námsmat, starfshætti og mat á árangri og gæðum skólastarfs. Skólanámskrá tekur mið af sérstöðu grunnskóla og aðstæðum og skal endurskoða reglulega.
Lesa meira

Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í Njarðvíkurskóla

Dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember á fæðingardegi skáldsins Jónasar Hallgrímssonar en þar sem 16. nóvember er á sunnudegi í ár var hann haldinn í Njarðvíkurskóla þann 14. nóvember. Þessi árlegi viðburður er hefð í skólanum þar sem íslensku máli er gert enn hærra undir höfði en aðra daga og markar þessi dagur einnig upphafið að undirbúningi 7. bekkjar fyrir Stóru upplestrarkeppnina sem þau taka þátt í ár hvert og einnig hjá 4. bekk sem tekur þátt í Stóru upplestrarhátíðinni.
Lesa meira

Jólaföndur foreldrafélags Njarðvíkurskóla

Foreldrafélag Njarðvíkurskóla verður með jólaföndur á sal Njarðvíkurskóla miðvikudaginn 19. nóvember frá kl. 17:30 til kl. 19:00. Í boði verður fjölbreytt úrval af skemmtilegu föndurefni fyrir bæði börn og fullorðna. Einnig verða styttur og jólakúlur til sölu gegn vægu gjaldi. Nemendur og forráðamenn eru hvattir til að taka með sér skæri, lím, liti og klósettpappírshólka. Við hvetjum öll til að mæta í jólalegum fötum og skapa skemmtilega stemningu saman. Öll hjartanlega velkomin.
Lesa meira

Starfsdagur 17. nóvember

Mánudaginn 17. nóvember er starfsdagur í Njarðvíkurskóla. Allir nemendur eiga frí þennan dag. Frístundaheimili yngri nemenda og frístundaheimili í Ösp eru lokuð þennan dag.
Lesa meira

Hrekkjavaka í Njarðvíkurskóla

Föstudaginn 31. október síðastliðin var Hrekkjavökuhátíð í Njarðvíkurskóla. Hefðbundin kennsla var brotin upp hluta af degi þar sem nemendur gátu farið á milli fjölbreyttra stöðva þar sem ýmislegt var brallað. Meðal annars var hægt að blanda eiturdrykki, fara í Just dance, skoða nornakistil, leysa hrekkjavökugátur og breakout og margt fleira skemmtilegt og hræðilegt. Dagurinn endaði svo á sal þar sem nemendur úr nemendaráði voru búin að skreyta salinn í stíl við Hrekkjavöku og sungu og dönsuðu við lög tengdri Hrekkjavökunni. Nemendur og starfsfólk mættu klædd í stíl við daginn og eins og má sjá á myndum hér að neðan var mikið fjör á þessum degi.
Lesa meira

Ösp hlýtur styrk úr Góðgerðarfesti Blue

Fimmtudaginn 23. október síðastliðin fóru tveir nemendur úr Ösp, Lena Dominica og Hjálmar Bernhard, ásamt Helgu Ólínu kennara sínum og tóku á móti veglegum styrk sem Ösp fékk úthlutað frá bílaleigunni Blue. Blue heldur árlega Góðgerðarfest og var Ösp eitt af þeim málefnum sem hlutu styrk í ár. Það er mikilvægt fyrir Ösp að finna fyrir velvild í samfélaginu og hljóta slíkan styrk sem eflir enn frekar það öfluga starf sem á sér stað í Ösp. Ösp er sérhæft námsúrræði fyrir fatlaða nemendur í Reykjanesbæ sem eru í brýnni þörf fyrir einstaklingsmiðað og mjög sérhæft námsumhverfi og kemur þessi styrkur því að verulega góðum notum. Njarðvíkurskóli þakkar kærlega fyrir þessa frábæru gjöf.
Lesa meira

Frábær gjöf til Njarðvíkurskóla: Uppstoppaðir fuglar og ísbjarnarhamur

Njarðvíkurskóli fékk í dag frábæra gjöf frá ættingjum Garðars Magnússonar, skipstjóra og útgerðarmanns frá Höskuldarkoti í Njarðvík. Garðar lést 10. október 2025, 95 ára gamall. Það var ósk Garðars að Njarðvíkurskóli fengi að gjöf sex uppstoppaða fugla og ísbjarnarham. Rafn Markús Vilbergsson skólastjóri ásamt níu nemendum úr 6. bekk heimsóttu í dag Þorbjörgu Garðarsdóttur dóttur Garðars og veittu gjöfinni viðtöku. Njarðvíkurskóli vill færa ættingjum Garðars Magnússonar þakkir fyrir þessa dýrmætu og merku gjöf sem á eftir að gleðja og fræða nemendur Njarðvíkurskóla um ókomin ár.
Lesa meira

Nemendur frá Njarðvíkurskóla heiðraðir á alþjóðlegri kvikmyndahátíð

Nemendur úr áttunda bekk Njarðvíkurskóla tóku þátt í stuttmyndasamkeppninni Sexan forvarnarverkefni Neyðarlínunnar á síðasta skólaári og unnu samkeppnina. Sigurliðið fékk síðan sérstakt tækifæri til að sýna verk sitt á alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð sem fram fór í Bíó Paradís í Reykjavík. Sexan er forvarnarverkefni þar sem ungt fólk fræðir ungt fólk um mikilvæg málefni sem varða öryggi og líðan ungmenna. Þátttakendur búa til efni sem á að hafa áhrif á jafnaldra sína og koma mikilvægum skilaboðum á framfæri á áhrifaríkan og skapandi hátt. Sigurliðið samanstóð af sjö nemendum: Sóldísi, Elísu, Viktoríu, Helenu, Arnóri, Andrési og Karen Gígju. Þessi hópur vann vel saman og sýndi fram á að með samvinnu, sköpunargleði og mikilli vinnu er hægt að ná góðum árangri. Myndbandið sem þau bjuggu til vakti mikla athygli. Að vera valin til að kynna verk sitt á alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð er gríðarleg viðurkenning fyrir nemendurna. Hátíðin í Bíó Paradís er þekkt fyrir að sýna hágæða kvikmyndaverk frá börnum og ungmennum um allan heim. Að fá að vera hluti af þessum viðburði og deila verkinu sínu var ómetanleg reynsla fyrir nemendurna. Hér fyrir neðan má sjá mynd af hluta af sigurliði Njarðvíkurskóla sem fór á sýninguna í Bíó Paradís.
Lesa meira

Hrekkjavökuhátíð 31. október

Föstudaginn 31. október verður haldin Hrekkjavökuhátíð í Njarðvíkurskóla. Þetta er uppbrotsdagur samkvæmt skóladagatali og verður hluti af deginum helgaður hrekkjavökunni. Við ætlum að búa til hrekkjavökustemningu í skólanum þar sem nemendur taka þátt í fjölbreyttum viðburðum og stöðvum. Á meðal þess sem verður í boði eru skapandi og dularfullar stöðvar í kennslustofum, hrekkjavökuleikir og þrautir, draugalegt diskó, söngur, tónlist og önnur fjölbreytt hrekkjavökuverkefni. Kennsla fer fram samkvæmt stundaskrá frá kl. 8:15 til 10:35 og skipulögð hrekkjavökudagskrá frá kl. 10:35 til 13:20. Frímínútur og hádegismatur verða á hefðbundnum tímum. Frístundaheimili verður með hefðbundnu sniði. Nemendur fara ekki í sund þennan dag en íþróttir verða samkvæmt stundaskrá til kl. 10:35 og verður tekið tillit til búninga í þeirri kennslu. Við hvetjum nemendur til að mæta í búningum eða einhverju sem tengist hrekkjavöku. Salurinn í skólanum verður skreyttur í hrekkjavökuanda og munu nemendur taka þátt í söng og dansi. Mikilvægt er að nemendur komi klæddir eftir veðri þar sem þeir fara út í frímínútur líkt og aðra daga. Við hlökkum til dagsins þar sem nemendur og starfsfólk mun njóta saman hrekkjavökustemningar í skólanum.
Lesa meira

Vetrarleyfi 17. og 20. október

Föstudaginn 17. október og mánudaginn 20. október er vetrarleyfi í Njarðvíkurskóla. Engin kennsla fer fram þessa daga og frístundaheimili skólans, bæði í skólanum og í Ösp, verða lokuð. Vonast er til að öllum líði vel í vetrarleyfinu.
Lesa meira