Fréttir

Íþróttadagur Njarðvíkurskóla

Það var líf og fjör í Njarðvíkurskóla í dag, 30. apríl, en þá fór fram árlegur íþróttadagur skólans. Íþróttadagurinn fer þannig fram að allir bekkir skólans keppa í ýmsum þrautum. Þrautirnar í ár voru bæði hefðbundnar og óhefðbundnar. Hver bekkur var með sinn lit og setti það skemmtilegan brag á daginn. Að lokum var íþróttabekkur Njarðvíkurskóla krýndur en það er sá bekkur sem fékk flest stig í keppnum dagsins. Í ár voru það nemendur í 10. ÞBI sem unnu bikarinn góða. 8. US endaði í 2. sæti og 9.HH í 3. sæti.
Lesa meira

Próf í 8.-10. bekk

Líkt og undanfarin ár setjum við upp próftöflu fyrir yfirlitspróf í íslensku, stærðfræði og ensku fyrir 8.-10. bekk. Á meðfylgjandi mynd má sjá próftöflu ásamt því hvaða daga sjúkrapróf eru fyrir þessi próf.
Lesa meira

Stóri plokkdagurinn 2025

Stóri Plokkdagurinn í Njarðvíkurskóla var tekinn með trompi föstudaginn 25.apríl og tvær fyrstu kennslustundir föstudagsins fóru í þetta verkefni. Nemendur og starfsfólk sameinuðust í því að plokka allt rusl í nærumhverfi skólans með góðum árangri. Dugnaður og drifkraftur hjá þessu flotta fólki var til fyrirmyndar og gaman að geta tekið þátt í þessu landsátaki með svo kraftmiklum hætti.
Lesa meira

Sumarfrístund fyrir börn fædd 2019 - Skráning hafin

Frístundaheimili grunnskólanna (Sumarfrístund), fyrir tilvonandi 1. bekkinga (börn fædd 2019), verða opin frá 11. ágúst til skólasetningar. Markmiðin með þessari opnun eru m.a. að brúa bilið milli leik- og grunnskólagöngu nemenda, að aðlögun nýrra leikskólabarna geti hafist sem fyrst að hausti og að aðlaga tilvonandi 1. bekkinga í grunnskólann sinn.
Lesa meira

Páskafrí 2025

Páskafrí í skólanum hefst mánudaginn 14. apríl. Kennsla hefst aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 22. apríl. Við óskum öllum nemendum og forráðamönnum gleðilegra páska og vonum að þið njótið vel yfir hátíðarnar. Við hlökkum til að taka á móti öllum endurnærðum og tilbúnum í lokasprett skólaársins.
Lesa meira

Skóladagatal fyrir skólaárið 2025-2026

Skóladagatal Njarðvíkurskóla og Ösp fyrir skólaárið 2025-2026 hefur verið birt og hægt er að nálgast það hér. Dagatalið hefur verið samþykkt af starfsfólki skólans, skólaráði og hjá menntaráði Reykjanesbæjar.
Lesa meira

Árshátíð Njarðvíkurskóla 2025

Glæsileg árshátíð Njarðvíkurskóla var haldin þann 4. apríl. Þema árshátíðarinnar í ár var „Árið okkar", sem var sama þema og hafði verið á þemadögum fyrr í vetur. Nemendur fluttu atriði sem tengdust þeirra fæðingarári og voru atriðin fjölbreytt í ár og höfðu nemendur og kennarar þeirra lagt á sig mikla vinnu við að undirbúa sín atriði. Líkt og áður voru það nemendur skólans sem voru í öllum helstu lykilhlutverkum þannig að nemendur úr 9. og 10. bekk voru kynnar, hljóð- og ljósamenn sem og sviðsmenn og ber að hrósa þeim nemendum sem tóku það hlutverk að sér fyrir frábæra vinnu og samvinnu í ár. Árshátíðin var haldin í íþróttahúsi skólans sem var búið að umbreyta í frábæran leik- og tónlistarsal. Að lokinni árshátíð var boðið upp á skúffuköku og drykki í boði foreldrafélags Njarðvíkurskóla í skólanum þar sem forráðamenn gátu skoðað afrakstur þemadaga frá því fyrr í vetur. Foreldrar og gestir voru sammála um að árshátíðin hefði verið einstaklega vel heppnuð og endurspeglað vel þann góða anda sem ríkir í Njarðvíkurskóla. Hér má sjá nokkrar myndir frá árshátíðinni og fleiri myndir munu koma síðar
Lesa meira

Árshátíð Njarðvíkurskóla 2025

Árshátíð Njarðvíkurskóla verður haldin föstudaginn 4. apríl 2025. Nemendur mæta kl. 10:30 í heimastofur og fara þaðan saman með umsjónarkennara sínum yfir í íþróttahúsið. Sumir nemendur gegna sérstökum hlutverkum og mæta þeir samkvæmt fyrirmælum frá sínum kennara. Nemendur í Ösp mæta í Ösp kl. 8:15. Frístundaheimili skólans og í Ösp eru lokuð þennan dag. Hátíðardagskrá hefst kl. 11:00 í íþróttahúsinu við Njarðvíkurskóla. Þar verða frátekin sæti fyrir hvern árgang á gólfinu en gestir fá sæti í stúkunni og mögulega á öftustu röðum gólfsins. Íþróttahúsið opnar fyrir gesti kl. 10:30. Þema árshátíðarinnar er ÁRIÐ OKKAR. Sama þema og var á þemadögum skólans í febrúar. Í kjölfar hátíðardagskrár afrakstur nemenda frá þemadögunum til sýnis. Eins og hefð er fyrir er árshátíðargestum boðið upp á kaffiveitingar í skólanum eftir dagskrána, í boði verður skúffukaka og drykkir. Í ár er skúffukakan í boði foreldrafélags Njarðvíkurskóla. Athugið að nemendur koma ekki með síma á árshátíðina þar sem notkun síma og myndataka nemenda er ekki leyfð. Við hvetjum forráðamenn og aðra fjölskyldumeðlimi til að mæta og taka þátt í þessum skemmtilega degi. Gert er ráð fyrir að dagskrá í íþróttahúsinu taki um 60 mínútur og eftir það eru nemendur í umsjá forráðamanna. Við minnum alla nemendur á að mæta stundvíslega og snyrtilega klædd.
Lesa meira

Innritun nýnema í grunnskóla

Innritun tilvonandi 1. bekkinga í grunnskóla fyrir skólaárið 2025-26 Innritun er hafin fyrir börn sem eiga að fara í 1. bekk grunnskóla í Reykjanesbæ haustið 2025. Gert er ráð fyrir því að foreldrar séu búnir að skrá börn sín fyrir 30. apríl. Í Reykjanesbæ sækja nemendur grunnskóla samkvæmt skólahverfum. Foreldrar sækja um skólavist fyrir börn sín á íbúavefnum Mitt Reykjanes. Hér má skoða frekari upplýsingar um grunnskóla Reykjanesbæjar.
Lesa meira

Skólaþing Njarðvíkurskóla

Þriðjudaginn 25. mars næstkomandi verður haldið Skólaþing Njarðvíkurskóla. Við bjóðum öllum sem koma að skólasamfélagi Njarðvíkurskóla og vilja hafa áhrif á skólastarfið að taka þátt. Forráðamenn, nemendur og starfsfólk eru sérstaklega boðin velkomin. Á þinginu gefst tækifæri til þess að koma með hugmyndir að því hvernig hægt er að efla skólastarfið og stuðla að áframhaldandi þróun skólans. Þingið verður haldið á sal Njarðvíkurskóla kl. 19:30-20:30. Hlökkum til að sjá ykkur sem flest
Lesa meira