Fréttir

Orka og tækni í samstarfi við HS Veitur

Í Njarðvíkurskóla eru fjölbreyttir valáfangar fyrir nemendur í 8.-10. bekk. Eitt af valfögunum er valfagið Orka og tækni sem er unnið í samstarfi við HS Veitur hf. Nemendur kynnast fjölbreyttum störfum sem iðn- og tækninám hefur uppá að bjóða. Kynnast starfsemi veitufyrirtækja og fræðast um vatn, hitaveitu og rafmagn auk þess að öðlast þessingu á umhverfismálum sem snúa að auðlindum. Námið er bæði bóklegt og verklegt og er að miklu leiti hjá HS Veitum. Kennarar eru iðn- og tæknimenntað starfsfólk hjá HS Veitum. Mikil ánægja er hjá nemendum með þessa valgrein og samstarfið við HS veitur er til fyrirmyndar. Valgrein sem þessi sýnir mikilvægi þess að auka vægi verklegrar kennslu hjá nemendum.
Lesa meira

Frábærir þemadagar í Njarðvíkurskóla

Forráðamenn og gestir nemenda í Njarðvíkurskóla fjölmenntu í dag á sýningu á afraksti nemenda að loknum þemadögum. Eins og gestir sáu þá hafa nemendur og starfsfólk ekki setið auðum höndum á þemadögunum og ótrúlega gaman að sjá afraksturinn og fjölbreytileika verkefna. Við erum svo lánsöm að forráðamenn og aðrir aðstandendur eru duglegir að mæta á viðburði í skólanum og var engin undantekning á því í þetta skipti. Kærar þakkir til allra sem komu og tóku þátt í deginum með okkur.
Lesa meira

Boðskort á opið hús - Heimsreisan - ferð um heiminn

Dagana 24. og 25. janúar eru þemadagar í Njarðvíkurskóla með yfirskriftina: Heimsreisan - ferð um heiminn. Á morgun miðvikudaginn 25. janúar verður opið hús fyrir forráðamenn og aðra gesti til að skoða afrakstur vinnu nemenda frá kl.12:40-13:20. Við hvetjum alla forráðamenn og gesti til að mæta á sýningu á afrakstri þemadagana og eiga góða stund saman með nemendum og starfsmönnum skólans.
Lesa meira

Samtalsdagur 1. febrúar

Miðvikudaginn 1. febrúar er samtalsdagur í Njarðvíkurskóla. Forráðamenn bóka viðtal við umsjónarkennara í gegnum Mentor og hér má finna myndband með leiðbeiningum um bókun viðtala: https://www.youtube.com/watch?v=mEFYnJhJAsM - Opnað verður fyrir bókanir 25. janúar kl. 00:01 og geta forráðamenn þá bókað sín viðtöl. Nemendur eiga að mæta með forráðamönnum sínum í viðtalið. Þeir forráðamenn sem eru með túlk í viðtalinu fá úthlutað tímum frá umsjónarkennurum og fá tölvupóst á næstu dögum með tímasetningunum. Óski forráðamenn eftir að hafa samtalið á TEAMS þá þarf að senda póst á umsjónarkennara og óska eftir slíku viðtali en mikilvægt er þó að nemandinn sé einnig í viðtalinu. Viðtöl fara fram í heimastofum nemenda. Þeir forráðamenn sem óska eftir viðtali við fag-, list- og verkgreinakennara, sem einnig eru til viðtals þennan dag, hafa samband við skrifstofustjóra skólans og bóka þau viðtöl. Hægt er að hringja í síma 420-3000 eða senda póst á njardvikurskoli@njardvikurskoli.is. Í viðtalinu verður farið yfir almennt gengi nemandans í skólanum og það námsmat sem lokið er á skólaárinu auk annars. Forráðamenn nemenda í 3., 6. og 9. bekk svara viðhorfskönnun eftir viðtalið og biðjum við þá forráðamenn um að staldra við og svara. Niðurstöður viðhorfskönnunar eru mikilvægur hluti í sjálfsmati skóla og notum við svörin til að gera gott skólastarf enn betra. Frístundaheimili skólans er opið á samtalsdaginn, bæði í skóla sem og Ösp frá kl. 8:15-16:15.
Lesa meira

Þemadagar í Njarðvíkurskóla 24. og 25. janúar

Dagana 24. og 25. janúar eru þemadagar í Njarðvíkurskóla með yfirskriftina: Heimsreisan - ferð um heiminn. Þemadagar eru uppbrotsdagar þar sem hefðbundin stundaskrá er látin víkja og nemendur vinna verkefni í tengslum við þemað. Skóladagur hefst hjá öllum nemendum kl. 8:15 í heimastofu og lýkur kl. 13:20/14:00 eða eins og stundaskrá árganga segir til um. Sérgreinar og val fellur niður þessa daga, þar með talið íþróttir og sund. Miðvikudaginn 25. janúar verður opið hús fyrir forráðamenn og aðra gesti til að skoða afrakstur vinnu nemenda frá kl.12:40-13:20. Vonumst við til að sjá ykkur sem flest.
Lesa meira

Landinn í heimsókn á þorranum

Í dag var síðasti dagur Læsisviku skólans. Þema vikunnar var þorrinn og voru fjölbreytt verkefni unnin þar sem áherslur voru á að efla enn frekar ánægju af lestri. Eitt að verkefnum vikunnar var að allir nemendur skólans lærðu lagið Þorraþræl (Nú er frost á fróni). Í morgun var einstök samverustund hér í skólanum þar sem allir nemendur og starfsfólk skólans mynduðu keðju um allan skólann með því að taka höndum saman og syngja lagið. Þáttastjórnendur Landans og myndatökumaður komu í heimsókn til okkar og tóku viðburðinn upp. Einnig tóku þeir upp árlegt þorrakappát hjá unglingastigi, tóku viðtöl við nokkra nemendur skólans og heimsóttu nokkar kennslustofur o.fl. Þátturinn verður sýndur á RÚV sunnudagskvöldið 29. janúar kl. 19:45 og hvetjum við alla til að horfa.
Lesa meira

Skólaþing Njarðvíkurskóla

Þriðjudaginn 17. janúar verður skólaþing á sal Njarðvíkurskóla frá kl. 17:00-18:00. Skólaþingið er hugsað sem samráðsvettvangur skólasamfélags Njarðvíkurskóla og er yfirskrift þess: Hvað einkennir góðan skóla? Forráðamönnum sem koma að skólasamfélagi Njarðvíkurskóla og vilja hafa áhrif á skólastarfið til skólaþingsins er boðið á skólaþingið. Þar hafa allir möguleika á því að koma með hugmyndir hvernig hægt er að efla skólastarfið og þróun skólans. Nemendum í 5.-10. bekk er einnig boðið að sitja skólaþingið sem og starfsfólki skólans.
Lesa meira

Starfsdagur 17. janúar - English below - Polski ponizej

Þriðjudaginn 17. janúar er starfsdagur í Njarðvíkurskóla. Allir nemendur eiga frí þennan dag. Frístundaheimili yngri nemenda og frístund í Ösp er lokað þennan dag. Tuesday 17th. of January is a teachers work day in Njardvikurskoli. All students have a vacation this day. The after school program is closed this day. Wtorek 17. Styczen jest dniem pracy nauczyciela w Njardvikurskoli. Wszyscy studenci maja wakacje tego dnia. Program zajec pozalekcyjnych jest dzis zamkniety.
Lesa meira

Jólaskákmót Vinakots

Jólaskákmót Vinakots fór fram í desember í 6. bekk. 16 þátttakendur voru í mótinu. Allir fengu viðurkenningarskjal fyrir þátttöku. Guðmundur Sæmundsson sigraði mótið. Aron Kristján Viðarsson í 2. sæti og Alan Boguniecki í 3. sæti.
Lesa meira

Ólafur Guðmundsson útbjó skilti fyrir Vinakot

Á skólaárinu 2021-2022 kusu nemendur 1.-6. bekk í Njarðvíkurskóla um nafn á húsnæði fyrir Skólavini í Njarðvíkurskóla. Kosið var um sex nöfn og Vinakot varð fyrir valinu. Í vikunni kom upp skilti með nafni húsnæðisins. Ólafur Guðmundsson var fenginn til að útbúa fyrir okkur skilti og er útkoman frábær. Skiltið er útskorið þar sem kemur fram heitið á húsnæðinu og merki Njarðvíkurskóla. Njarðvíkurskóli þakkar Ólafi kærlega fyrir samstarfið og vel unnið starf. Skólavinaverkefnið í Njarðvíkurskóla gengur út á það að hvetja nemendur til meiri þátttöku í afþreyingu í frímínútunum og skapa betri skólaanda. Aðal markmiðið með þessu verkefni er að bjóða öllum nemendum skólans fjölbreyttara úrval afþreyingar í fyrri frímínútum, þannig að nemendur skólans finni eitthvað við sitt hæfi. Markmið okkar er að allir nemendur skólans hlakki til að mæta í skólann sinn, alla daga. Umsjónarmaður Skólavinaverkefnisins í Njarðvíkurskóla er Sjöfn Sóley Guðlaugsdóttir.
Lesa meira