30.09.2025
Miðvikudaginn 8. október er samtalsdagur í Njarðvíkurskóla.
Forráðamenn bóka viðtal við umsjónarkennara í gegnum Mentor. Opnað verður fyrir bókanir 1. október um kl. 10:00 og geta forráðamenn þá bókað sín viðtöl.
Þeir forráðamenn sem eru með túlk í viðtalinu fá úthlutað tímum frá umsjónarkennurum og fá tölvupóst á næstu dögum með tímasetningunum.
Viðtöl fara fram í heimastofum nemenda. Þeir forráðamenn sem óska eftir viðtali við fag-, list- og verkgreinakennara, sem einnig eru til viðtals þennan dag, hafa samband við skrifstofustjóra skólans og bóka þau viðtöl. Hægt er að hringja í síma 420-3000 eða senda póst á njardvikurskoli@njardvikurskoli.is.
Óski forráðamenn eftir að hafa samtalið á TEAMS þá þarf að senda póst á umsjónarkennara og óska eftir slíku viðtali en mikilvægt er þó að nemandinn sé einnig í viðtalinu.
Grunnurinn í viðtalinu er könnun um líðan og almennt gengi nemenda í skólanum sem nemendur svara heima með forráðamönnum og er könnun svarað rafrænt. Tengill á könnunina er: www.njardvikurskoli.is/is/samskiptadagur og mikilvægt er að svara fyrir hvert barn og velja réttan tengil eftir árgangi. Mikilvægt er að könnuninni sé svarað sem fyrst.
Nemendur eiga að mæta með forráðamönnum sínum í viðtalið.
Frístundaheimili skólans og í Ösp eru opin á samtalsdeginum frá kl. 8:15-16:15.
Á samtalsdeginum verða fulltrúar með kynningu frá fjölmörgum íþrótta- og tómstundafélögum í Reykjanesbæ á sal skólans. Við hvetjum forráðamenn til að staldra við, kynna sér úrvalið og sjá hvaða tækifæri standa börnum og ungmennum til boða í Reykjanesbæ.
Lesa meira
26.09.2025
Nemendur 7. bekkjar komu þreyttir en ánægðir heim úr skólabúðum UMFÍ að Reykjum í Hrútafirði síðastliðinn fimmtudag, 18. september. Hópurinn dvaldi í skólabúðunum frá mánudeginum 15. september og naut fjölbreyttrar dagskrár undir handleiðslu reynslumikilla leiðbeinenda.
Umsjónarkennararnir Kristbjörg og Fríða fylgdu nemendum í ferðina, ásamt stuðningsfulltrúunum Samúel og Magndísi sem veittu ómetanlegan stuðning. Skólabúðir UMFÍ að Reykjum bjóða upp á fræðandi og skemmtilega dagskrá sem styður við námskrá grunnskóla og eflir félagsfærni nemenda.
Að sögn kennara tóku nemendur virkan þátt í öllum verkefnum og sýndu samvinnu og hjálpsemi alla dagana. Þrátt fyrir stífa dagskrá og mikla útivist var stemningin góð og andrúmsloftið jákvætt.
„Það var ánægjulegt að sjá hvernig hópurinn þjappaðist saman í ferðinni og hvernig nemendur sem ekki höfðu átt mikil samskipti áður mynduðu ný vinatengsl," sagði Kristbjörg umsjónarkennari. Dvölin í skólabúðunum reyndist því ekki aðeins lærdómsrík heldur einnig mikilvæg fyrir félagsþroska nemenda.
Lesa meira
25.09.2025
Aðalfundur foreldrafélags Njarðvíkurskóla verður haldinn á sal skólans þriðjudaginn 7. október nk. kl. 17:00-18:00.
Dagskrá er eftirfarandi:
- skýrsla stjórnar
- ársreikningur
- kosning nýrrar stjórnar
- kosning formanns
- önnur mál
Í framhaldi af aðalfundi verður samtal um störf bekkjarfulltrúa. Stjórn foreldrafélagsins hefur ákveðið að stutt verði við bekkjarviðburði með bekkjarsjóði og munum við kynna fyrirkomulagið á fundinum. Við hvetjum bekkjarfulltrúa til að taka þátt í samtalinu og ræða hugmyndir og mögulega viðburði.
Bestu kveðjur,
foreldrafélag Njarðvíkurskóla
Lesa meira
24.09.2025
Njarðvíkurskóli tekur virkan þátt í lýðheilsu- og forvarnarviku Reykjanesbæjar.
Í vikunni 29. september til 3. október mun nemendaráð Njarðvíkurskóla vera með fjölbreytta dagskrá í frímínútum og hádegishléi. Við fáum Flotann og Samfélagslögguna í heimsókn á mið- og unglingastig og skólahjúkrunarfræðingur heimsækir yngsta stig með fræðslu. Nemendur í 9. bekk taka þátt í forvarnardeginum þar sem nemendur skoða niðurstöður nýjustu rannsókna á þeirra aldurshóp og vinna verkefni um jákvæð áhrif samveru, íþrótta- og tómstundaiðkunar á líf þeirra.
Skólinn er þátttakandi í verkefninu Göngum í skólann og hvetjum við alla nemendur og starfsfólk til að nýta sér virkan ferðamáta og koma gangandi eða hjólandi í skólann. Nemendur sem ekki eru í ávaxtaáskrift eru hvattir til að koma með hollt nesti í skólann og kennarar hvattir til að ljúka síðustu kennslustund fyrir hádegishlé með slökun/hugleiðslu. Fara með nemendur í vettvangsferðir/útinám í vikunni t.d. ratleik, umferðafræðslu eða annað og nýta lífsleiknitíma í slökun/hreyfingu/hópefli/umræður um andlega líðan.
Með þessu viljum við efla vellíðan, samveru og heilbrigðan lífstíl nemenda og starfsfólks. Við hlökkum til virkrar þátttöku og skemmtilegrar viku í anda lýðheilsu og forvarna.
Lesa meira
20.09.2025
Þriðjudaginn 23. september er starfsdagur í Njarðvíkurskóla. Allir nemendur eiga frí þennan dag.
Frístundaheimili yngri nemenda og frístund í Ösp eru lokuð þennan dag.
Lesa meira
18.09.2025
Nemendur Njarðvíkurskóla tóku þátt í hinu árlega Ólympíuhlaupi ÍSÍ í dag, 18. september. Hlaupið tókst vel þrátt fyrir smá kulda en hlaupið var í fallegu veðri.
Markmið hlaupsins var að hvetja nemendur til aukinnar hreyfingar og útiveru, ásamt því að undirstrika mikilvægi reglulegrar líkamsræktar fyrir heilsu og vellíðan. Með þátttöku sinni sýndu nemendur að þeir skildu mikilvægi þess að hreyfa sig og reyna á líkamann.
Ólympíuhlaupið er góð áminning um að hreyfing er ekki aðeins heilsusamleg heldur getur líka verið skemmtileg og gefandi reynsla fyrir alla.
Lesa meira
07.09.2025
Starfsfólk InfoMentor hefur tekið saman algengustu spurningar og svör fyrir InfoMentor kerfið. Bæði er um að ræða algengar spurningar og svör ásamt handbókum og leiðbeiningum.
Handbækur fyrir aðstandendur á þremur tungumálum, íslensku, ensku og arabísku. Þar er einnig að finna tvær aðrar handbækur: Handbók fyrir nemendur og Aðstandendur - að byrja í skóla.
Lesa meira
05.09.2025
Vel heppnaður íþróttadagur var haldinn í Njarðvíkurskóla í dag, föstudag, þar sem nemendur tóku þátt í fjölbreyttum íþróttakeppnum. Dagurinn einkenndist af mikilli gleði og keppnisanda þar sem bekkir kepptu sín á milli í ýmsum skemmtilegum greinum.
Íþróttakennarar skólans skipulögðu daginn af mikilli fagmennsku og tókst framkvæmdin einstaklega vel. Keppt var í margvíslegum greinum sem reyndu bæði á líkamlega færni og útsjónarsemi nemenda. Meðal keppnisgreina má nefna þriggja stiga keppni, stígvélaspark, gangahlaup og upphýfingar, sem allar reyndu á ólíka styrkleika nemenda.
Yngstu nemendurnir í 1.-5. bekk fóru á milli stöðva þar sem þau reyndu fyrir sér á fjölbreyttum stöðvum þar sem aðalatriðið var að hafa gaman og allir finndu eitthvað við sitt hæfi.
Í 6.-10. bekk var sama fyrirkomulag þar sem farið var á milli stöðva en sett upp keppni á milli bekkja. Keppnin var afar spennandi og jöfn fram á síðustu stundu. Stemningin var rafmögnuð þegar úrslitin voru tilkynnt, en að lokum stóð 10. bekkur grænn uppi sem sigurvegari. Í öðru sæti var 7.FSM og 9.US hreppti þriðja sætið eftir hörkukeppni.
Íþróttadagurinn er fastur liður í skólastarfinu og mikilvægur þáttur í heilsueflingu skólans og stuðlar að aukinni hreyfingu og félagslegri samkennd nemenda. Dagurinn undirstrikaði mikilvægi þess að nemendur fái tækifæri til að takast á við fjölbreytt verkefni og upplifa sigra í mismunandi greinum.
Í meðfylgjandi myndasafni má sjá myndir af gleðinni og fjörinu sem var í Njarðvíkurskóla í dag.
Lesa meira
04.09.2025
Ljósanótt í Reykjanesbæ var sett í dag, fimmtudag þar sem nemendur og starfsfólk Njarðvíkurskóla tóku virkan þátt, sem hófst með því að Ljósanæturfáninn var dreginn að húni við skólann. Það voru þau Karen Ósk og Vilberg Eldon,formaður og varaformaður nemendafélagsins, sem drógu fánann að húni.
Stemningin var sérlega hátíðleg þegar nemendur úr 3., 7. og 10. bekk gengu fylktu liði í skrúðgarðinn í Keflavík þar sem formleg setning hátíðarinnar fór fram. Þar skemmtu þau sér undir glæsilegum skemmtiatriðum, þar sem meðal annars komu fram VÆB bræður og sungið var ljósanæturlagið ásamt því að hátíðin sjálf var formlega sett.
Eftir hádegi var haldið glæsilegt Ljósanæturball í íþróttahúsinu þar sem nemendur dönsuðu og skemmtu sér konunglega undir stjórn nemendafélagsins sem sáu um að skipuleggja ballið. Var skemmtilegt að sjá hvað allir nemendur voru glöð og virkir þátttakendur í dans og söng.
Lesa meira