05.09.2025
Vel heppnaður íþróttadagur var haldinn í Njarðvíkurskóla í dag, föstudag, þar sem nemendur tóku þátt í fjölbreyttum íþróttakeppnum. Dagurinn einkenndist af mikilli gleði og keppnisanda þar sem bekkir kepptu sín á milli í ýmsum skemmtilegum greinum.
Íþróttakennarar skólans skipulögðu daginn af mikilli fagmennsku og tókst framkvæmdin einstaklega vel. Keppt var í margvíslegum greinum sem reyndu bæði á líkamlega færni og útsjónarsemi nemenda. Meðal keppnisgreina má nefna þriggja stiga keppni, stígvélaspark, gangahlaup og upphýfingar, sem allar reyndu á ólíka styrkleika nemenda.
Yngstu nemendurnir í 1.-5. bekk fóru á milli stöðva þar sem þau reyndu fyrir sér á fjölbreyttum stöðvum þar sem aðalatriðið var að hafa gaman og allir finndu eitthvað við sitt hæfi.
Í 6.-10. bekk var sama fyrirkomulag þar sem farið var á milli stöðva en sett upp keppni á milli bekkja. Keppnin var afar spennandi og jöfn fram á síðustu stundu. Stemningin var rafmögnuð þegar úrslitin voru tilkynnt, en að lokum stóð 10. bekkur grænn uppi sem sigurvegari. Í öðru sæti var 7.FSM og 9.US hreppti þriðja sætið eftir hörkukeppni.
Íþróttadagurinn er fastur liður í skólastarfinu og mikilvægur þáttur í heilsueflingu skólans og stuðlar að aukinni hreyfingu og félagslegri samkennd nemenda. Dagurinn undirstrikaði mikilvægi þess að nemendur fái tækifæri til að takast á við fjölbreytt verkefni og upplifa sigra í mismunandi greinum.
Í meðfylgjandi myndasafni má sjá myndir af gleðinni og fjörinu sem var í Njarðvíkurskóla í dag.
Lesa meira
04.09.2025
Ljósanótt í Reykjanesbæ var sett í dag, fimmtudag þar sem nemendur og starfsfólk Njarðvíkurskóla tóku virkan þátt, sem hófst með því að Ljósanæturfáninn var dreginn að húni við skólann. Það voru þau Karen Ósk og Vilberg Eldon,formaður og varaformaður nemendafélagsins, sem drógu fánann að húni.
Stemningin var sérlega hátíðleg þegar nemendur úr 3., 7. og 10. bekk gengu fylktu liði í skrúðgarðinn í Keflavík þar sem formleg setning hátíðarinnar fór fram. Þar skemmtu þau sér undir glæsilegum skemmtiatriðum, þar sem meðal annars komu fram VÆB bræður og sungið var ljósanæturlagið ásamt því að hátíðin sjálf var formlega sett.
Eftir hádegi var haldið glæsilegt Ljósanæturball í íþróttahúsinu þar sem nemendur dönsuðu og skemmtu sér konunglega undir stjórn nemendafélagsins sem sáu um að skipuleggja ballið. Var skemmtilegt að sjá hvað allir nemendur voru glöð og virkir þátttakendur í dans og söng.
Lesa meira
02.09.2025
Föstudaginn 5. september er íþróttadagur í Njarðvíkurskóla. Þetta er skertur nemendadagur samkvæmt skóladagatali og verða bekkir saman með umsjónarkennurum. Nemendur taka þátt í fjölbreyttum þrautum og leikjum sem miða að því að efla liðsheild, hreyfingu og skemmtilega stemningu í skólanum.
Allir nemendur mæta kl. 8:15 og skóladeginum lýkur kl. 11:15 hjá nemendum í 1.-5. bekk og kl. 12:00 hjá nemendum í 6.-10. bekk.
Að loknum skóladegi geta skráðir nemendur borðað hádegismat frá Skólamat kl. 11:15 eða kl. 12:00, eftir því hvenær þeirra skóla lýkur.
Frístundaheimili er hjá skráðum nemendum frá kl. 11:15 til 16:15.
Hver bekkur hefur sinn lit og hvetjum við nemendur til að mæta í fatnaði í viðeigandi litum. Það styrkir liðsheildina og bætir stemninguna í skólanum.
Litir bekkja og hópa:
- 1.bekkur - Gulur
- 2.bekkur - Rauður
- 3.bekkur - Grænn
- 4.bekkur - Blár
- 5.bekkur - Bleikur
- 6.BÖH - Fjólublár
- 6.THT - Rauður
- 7.FSM - Bleikur
- 7.KE - Blár
- 8.GEH - Appelsínugulur
- 8.KR - Brúnn
- 9.US - Svartur
- 9.TG - Grár
- 9.MRF - Hvítur
- 10.Gulur - Gulur
- 10.Grænn - Grænn
Lesa meira
02.09.2025
Nú styttist í hina árlegu Ljósanæturhátíð og viljum við koma á framfæri upplýsingum um dagskrá í Njarðvíkurskóla tengda hátíðinni.
Þriðjudagur 2. september:
Söngur á sal þar sem nemendur hittast og syngja lög tengd Ljósanótt.
Fimmtudagur 4. september:
Karen Ósk Lúthersdóttir formaður nemendaráðs og Vilberg Eldon Logason varaformaður draga að húni Ljósanæturfánann við skólann kl. 8:20.
Nemendur í 3., 7. og 10. bekk taka þátt í setningu Ljósanætur í Skrúðgarðinum við Sólvallargötu kl.10:30-11:15. Nemendur í 3. bekk fara með strætó en nemendur í 7. og 10. bekk ganga.
Ljósanæturdanspartý á skólalóð Njarðvíkurskóla kl.12:40-13:20 fyrir nemendur í 1.-10. bekk. Nemendaráð skólans stýrir tónlist og dansi.
Dagskrá í skrúðgarði:
Halla Karen Guðjónsdóttir viðburðastjóri aðstoðar við uppstillingu og kynnir dagskrá.
Bæjarstjóri ávarpar hópinn og setur Ljósanótt formlega.
Formaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar dregur Ljósanæturfánann að húni. Marglitur fáninn táknar fjölbreytileika íbúa Reykjanesbæjar og nemenda.
VÆB stýrir fjöldasöng með krökkunum.
Allir syngja saman lag og texta Ásmundar Valgeirssonar, "Velkomin á Ljósanótt".
Við hvetjum bæði nemendur og starfsfólk til að mæta í einhverju grænu í skólann bæði 2. og 4. september.
Lesa meira
01.09.2025
Verkefnið Göngum í skólann verður sett í nítjánda sinn þann 3. september n.k. og munum við í Njarðvíkurskóla taka þátt líkt og undanfarin ár, en verkefninu lýkur svo formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 1. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.
Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskautar, hjólabretti eða annað. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.
Njarðvíkurskóli er heilsueflandi grunnskóli og með þátttöku okkar í verkefninu Göngum í skólann viljum við hvetja bæði nemendur og starfsfólk til að nýta tækifærið og fara ferða sinna sem oftast gangandi eða hjólandi í skólann. Við leggjum áherslu á öryggi nemenda í umferðinni og mikilvægi þess að nota hjálma þegar ferðast er um á hjólum.
Verum opin og jákvæð fyrir verkefninu og nýtum haustið til að vekja athygli á hreyfingu og öryggi barna okkar á leiðinni í skólann.
Nokkur heilræði fyrir foreldra og nemendur í skólabyrjun:
Æfum leiðina í og úr skóla saman
Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki stystu
Leggjum tímanlega af stað, ekki flýta sér
Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar
Verum sýnileg, notum endurskinsmerki
Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir
Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla
Við viljum einnig benda forráðamönnum á áhugaverðar síður sem tengjast verkefninu og umferðaröryggi.
www.gongumiskolann.is.
https://umferd.is/grunnskoli/
Öruggasta leiðin í skólann (Úti í umferðinni)
https://www.youtube.com/watch?v=qFYOGfDt0_g&t=184s
Lesa meira
19.08.2025
Skólasetning Njarðvíkurskóla fer fram mánudaginn 25. ágúst. Nemendur mæta ásamt forráðamönnum í heimastofur þar sem umsjónarkennarar verða með skólakynningu. Á skólakynningum verður farið yfir ýmist atriði sem tengist skólastarfi í Njarðvíkurskóla og yfir helstu áherslur í hverjum og einum árgangi. Að kynningum loknum verða nemendur áfram í skólanum með umsjónarkennurum (sjá tímasetningar hér að neðan). Þar verður lögð áhersla á hópefli, tengslamyndun og að styrkja sambönd nemenda við umsjónarkennara og stuðningsfulltrúa. Nemendur í 1.-7. bekk eru hvattir til að taka með sér nesti.
Frístundaheimili í Njarðvíkurskóla og Ösp verða opin frá 10:35 til kl. 16:15 fyrir þá nemendur sem þar eru skráðir.
Kennsla hefst samkvæmt stundatöflu hjá öllum nemendum þriðjudaginn 26. ágúst kl. 8:15.
Tímasetningar á skólasetningu:
Nemendur í 1.-4. bekk mæta kl. 8:15 og verða í skólanum til kl. 10:35.
Nemendur í 5.-7. bekk mæta kl. 8:55 og verða í skólanum til kl. 11:15.
Nemendur í 8.-10. bekk mæta kl. 9:55 og verða í skólanum til kl. 12:00.
Nemendur í Ösp mæta á mismunandi tímasetningum eftir samtal við forráðamenn.
Nemendur í Björk mæta á mismunandi tímasetningum eftir samtal við forráðamenn.
Lesa meira
06.08.2025
Sumarfrístund fyrir nemendur sem þar eru skráðir og hefja nám í 1. bekk við Njarðvíkurskóla haustið 2025 hefst mánudaginn 11. ágúst. Vistun er alla virka daga frá og með 11. ágúst til og með 22. ágúst frá kl. 9:00 til 15:00.
Nemendur eru beðnir um að koma með nesti en hádegisverður verður í boði í skólanum.
Nánari upplýsingar sumarfrístund verða sendar á forráðamenn nemenda sem eiga skráð börn í sumarfrístund, föstudaginn 8. ágúst.
Lesa meira
24.06.2025
Sjálfsmatsskýrsla Njarðvíkurskóla fyrir skólaárið 2024–2025 hefur verið birt og er aðgengileg á heimasíðu skólans.
Skýrslan gegnir lykilhlutverki í að tryggja gæði skólastarfsins og er mikilvægur þáttur í stöðugri þróun og umbótum innan skólans. Hún dregur fram helstu niðurstöður innra mats sem byggir á fjölbreyttum gögnum frá nemendum, forráðamönnum og starfsfólki.
Unnið er út frá stefnu Njarðvíkurskóla og menntastefnu Reykjanesbæjar og eru meginmarkmið skýrslunnar að greina styrkleika skólans, varpa ljósi á umbótatækifæri og styðja við áframhaldandi faglegt starf og framþróun.
Lesa meira
19.06.2025
Skrifstofa Njarðvíkurskóla verður lokuð frá og með 20. júní til og með 5. ágúst. Skólasetning verður mánudaginn 25. ágúst 2025.
Sumarfrístund fyrir nemendur sem þar eru skráðir og hefja nám í 1. bekk hefst 11. ágúst.
Starfsfólk Njarðvíkurskóla óska nemendum og fjölskyldum þeirra gleðilegs sumars.
Lesa meira
13.06.2025
Skólaslit Njarðvíkurskóla fóru fram við hátíðlega athöfn á sal skólans föstudaginn 6. júní hjá nemendum í 1.-10. bekk.
Skólaslit hjá 1.-9. bekk var skipt upp í fjóra hluta: 1., 2. og 3. bekkur, 4., 5. og 6. bekkur, 7., 8. og 9. bekkur og að loum 10. bekkur.
Skólaslitin byrjuðu á sal þar sem Rafn Markús Vilbergsson, skólastjóri ávarpaði nemendur, forráðamenn og starfsfólk. Að lokum var Njarðvíkurskóla slitið en þetta var 83. starfsár skólans. Að þessu loknu fóru nemendur með sínum umsjónarkennurum í heimastofur og fengu afhentan vitnisburð sinn. Á skólaslitum hjá 1.-3. bekk spilaði Ingunn Ágústa Andradóttir nemandi í 3. bekk á píanó, hjá 4.-6. bekk spilaði Halldór Martin Briansson nemandi í 5. bekk á píanó og hjá 7.-9. bekk spilaði Elin Mia Hardonk nemandi í 8. bekk á selló.
Á skólaslitunum hjá 10. bekk spilaði Þorgerður Tinna Kristinsdóttir nemandi í 10. bekk á klarinett.
Á skólaslitunum í 10. bekk voru fjölmargar viðurkenningar veittar til einstakra nemenda.
Veittar voru viðurkenningar fyrir góðan námsárangur fyrir einstakar greinar í 10. Bekk. Það eru ýmis félagasamtök í nærsamfélagi skólans sem gáfu verðlaunin og kann Njarðvíkurskóli þeim bestu þakkir fyrir. Eftirtaldir nemendur í 10. bekk fengu viðurkenningu fyrir sinn námsárangur.
- Albert Guðmundsson viðurkenningu fyrir almennt góðan námsárangur
- Alexandra Nótt Eysteinsdóttir viðurkenningu fyrir góðan árangur í heimilisfræði
- Almar Orri Jónsson viðurkenningu fyrir almennt góðan námsárangur
- Arnar Freyr Bjarkason viðurkenningu fyrir almennt góðan námsárangur auk þess að ljúka stúdentsprófi í spænsku á framhaldsskólastigi
- Birta Rós Árnadóttir viðurkenningu fyrir hæstu einkunn í ensku, samfélagsfræði og myndlist
- Elísa Valsdóttir viðurkenningu fyrir almennt góðan námsárangur
- Elísabet María Þórisdóttir háttvísisverðlaun Ásgerðar Þorgeirsdóttur og viðurkenningu fyrir almennt góðan námsárangur
- Helga Jara Bjarnadóttir viðurkenningu fyrir almennt góðan námsárangur
- Helena Mist Gabríelsdóttir viðurkenningu fyrir stærðfræði á framhaldsskólastigi og almennt góðan námsárangur
- Kara Sif Gunnarsdóttir viðurkenningu fyrir almennt góðan námsárangur
- Katrine Johanna Halldórsdóttir viðurkenningu fyrir nám í listum í Ösp
- Konráð Logi Örvarsson viðurkenningu fyrir nám í stærðfræði og listum í Ösp
- Kristinn Einar Ingvason viðurkenningu fyrir starf í þágu nemenda sem formaður nemendaráðs
- Kristjana Ása Lárusdóttir viðurkenningu fyrir almennt góðan námsárangur
- Logi Örn Logason viðurkenningu sem íþróttadrengur Njarðvíkurskóla og almennt góðan námsárangur
- Sara Björk Hrafnhildardóttir viðurkenningu fyrir framfarir í námi
- Sigurbjörg Brynja Helgadóttir viðurkenningu fyrir almennt góðan námsárangur
- Vladyslav Voloshyn viðurkenning fyrir framfarir í námi
- Þorgerður Tinna Kristinsdóttir viðurkenningu fyrir hæsta einkunn í íslensku, stærðfræði í grunn- og framhaldsskóla, dönsku, samfélagsfræði, náttúrufræði og íþróttum. Auk þess viðurkenningu sem íþróttastúlka Njarðvíkurskóla.
- Þóra Vigdís Gustavsdóttir viðurkenningu fyrir almennt góðan námsárangur
Á skólaslitum 10. bekkjar héldu Kristinn Einar Ingvason formaður nemendaráðs og Þorgerður Tinna Kristinsdóttir varaformaður ræðu fyrir hönd útskriftarnema. Torfi Gíslason, Þórdís Björg Ingólfsdóttir og Þórir Rafn Hauksson umsjónakennarar 10. bekkjar héldu einnig ræðu. Útskriftarnemendur fengu hátíðartrefla að gjöf frá skólanum í útskriftargjöf. Rafn Markús Vilbergsson, skólastjóri ávarpaði nemendur, forráðamenn, gesti og starfsfólk þar sem hann fór yfir skólaárið 2024-2025.
Að lokum var Njarðvíkurskóla slitið í 83. skipti.
Lesa meira