Fréttir

Sexan, sigur í stuttmyndasamkeppni

Nemendur í 7. bekk í Njarðvíkurskóla tóku þátt í stuttmyndasamkeppninni Sexan fyrr í vetur. Það var Neyðarlínan, 112, sem hélt utan um keppnina ásamt ótal samstarfsaðilum. Lesa má um fyrirkomulag keppninnar á www.112.is/sexan Fyrirkomulag Sexunnar var þannig að þátttakendur fengu fræðslu í skólanum og fengu svo tækifæri til að búa til og skila inn tilbúinni stuttmynd, sem mátti vera að hámarki þrjár mínútur að lengd. Viðfangsefni keppninnar í ár voru fjórar birtingarmyndir stafræns ofbeldis, samþykki, nektarmynd, tæling eða slagsmál ungmenna. Nemendur skiptu sér síðan í hópa og voru útbúin sex myndbönd í skólanum og þrjú myndbönd voru síðan send í lokakeppnina sjálfa sem var haldin á landsvísu. Það var svo eitt myndband úr Njarðvíkurskóla sem vann keppnina sjálfa og komu fulltrúar frá samstarfsaðilum Sexunnar, sem voru samfélagslögreglur af Suðurnesjum, og tilkynntu þeim að sigurvegarar keppninnar kæmu úr Njarðvíkurskóla. Sigurliðið sjálft fór síðan á verðlaunahátíð sem haldin var í Ráðhúsi Reykjavíkur. Sigurlið Njarðvíkurskóla var skipað þeim Andrési Sigurði, Arnóri Darri, Elísu Guðrúnu, Helenu Rós, Karen Gígju, Sóldísi Evu og Viktoríu Sól og var það Karen Ösp Randversdóttir umsjónarkennari úr 7. bekk sem hélt utan um keppnina og framkvæmdina hér í skólanum. Hér með fréttinni má síðan sjá myndir af því þegar samfélagslögreglurnar komu og tilkynntu sigurvegarana og þegar sigurhópurinn sjálfur fór að taka á móti sínum verðlaunum.
Lesa meira

Fjallgönguval

Fjallgönguhópur í skemmtilegri vorferð á Helgafell Nemendur í fjallgönguvali skólans fóru í skemmtilega og vel heppnaða gönguferð á Helgafell við Hafnarfjörð mánudaginn 19. maí. Hópurinn, sem samanstóð af nemendum úr 8.-10. bekk, voru undir leiðsögn Heiðrúnar Rósar íþróttakennara og Þóris Rafns kennara. Helgafell, sem rís 340 metra yfir sjávarmál, er vinsæll áfangastaður fyrir fjallgöngufólk og býður upp á stórkostlegt útsýni yfir Hafnarfjörð og nágrenni. Veðrið lék við göngufólkið og stemningin í hópnum var frábær alla leiðina upp á topp. Þessi ferð á Helgafell var einstaklega vel heppnuð og sýndi vel hvernig útivera og hreyfing getur verið bæði lærdómsrík og skemmtileg.
Lesa meira

Litla upplestrarhátíðin í Njarðvíkurskóla

Litla upplestrarhátíðin í 4. bekk var haldin með glæsibrag í dag í Njarðvíkurskóla þar sem nemendur í 4. bekk sýndu færni sína í upplestri. Viðburðurinn fór fram á sal skólans þar sem nemendur 3. bekkjar voru gestir, sem hluti af undirbúningi þeirra fyrir næsta skólaár, ásamt foreldrum í 4. bekk sem var boðið að koma og hlýða á flutning barna sinna. Kennararnir Anika Rós, Guðlaug og Hera héldu utan um hátíðina og voru æfingar búnar að fara fram síðustu vikur og mánuði. Það var sérlega ánægjulegt að sjá hversu vel nemendur höfðu undirbúið sig og hversu mikinn metnað þau lögðu í flutning sinn. Ásamt upplestri nemenda var tónlistaratriði sem Kastíel Hrafn nemandi í 4. bekk flutti lagið Harry Potter. Litla upplestrarhátíðin er mikilvægur viðburður í skólastarfinu og stuðlar að auknum áhuga nemenda á lestri og tjáningu og er góður undirbúningur fyrir Stóru upplestrarkeppnina sem er haldin árlega í 7. bekk.
Lesa meira

Leikgleði í Stapa

Lokahátíð verkefnisins Leikgleði sem ætlað er að efla leik og sköpun í námi yngstu nemenda fór fram með glæsibrag í Stapa fimmtudaginn 15. maí. Þar komu saman nemendur í 1.–2. bekk allra grunnskóla Reykjanesbæjar og sýndu fjölbreytt atriði sem endurspegluðu markmið og áherslur verkefnisins. Nemendur úr Njarðvíkurskóla fluttu leikþátt, 1. bekkur um virðingu, ábyrgð og vinsemd og 2. bekkur var með leikþátt sem var unnin út frá bókinni Tröllamatur og sungu lagið Vinur minn. Að lokum sameinaðist allur hópurinn í söng á laginu Dropalagið. Nemendur voru til fyrirmyndar og tókst hátíðin afar vel.
Lesa meira

Íþróttakeppni milli nemenda í 10. bekk og starfsfólks

Hin árlega íþróttakeppni milli starfsfólks og nemenda í 10. bekk fór fram í íþróttahúsi skólans í dag við mikla stemningu. Hefð er fyrir því að strákar keppi í fótbolta og stelpur í körfubolta og var engin undantekning á því í ár. Íþróttahúsið var þétt setið þegar keppnin hófst með körfuboltaleik stelpnanna. Stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra og hvöttu sín lið áfram af mikilli innlifun. Leikurinn var gríðarlega spennandi og jafn framan af, en nemendurnir sýndu frábæra samvinnu og náðu smám saman yfirhöndinni. Lokatölur urðu 19-16 fyrir nemendur, sem fögnuðu sigrinum innilega. Í kjölfarið hófst fótboltaleikur strákanna, þar sem starfsfólk sýndi að reynslan skilar sínu. Þrátt fyrir að nemendurnir hafi lagt hart að sér og sýnt lipra takta, þá nýtti starfsfólkið færin sín betur og unnu öruggan 4-2 sigur. Stemningin í húsinu var rafmögnuð allan tímann og skemmtu áhorfendur sér konunglega. Keppnin endaði því með jöfnu þar sem hvort lið vann sinn leik. Það var einróma álit allra að viðburðurinn hafi heppnast frábærlega og styrkt enn frekar góð samskipti milli nemenda og starfsfólks. ,,Þetta var frábær dagur og mikilvæg áminning um hvað íþróttir geta verið góð leið til að efla skólaandann," sagði íþróttakennari skólans að keppni lokinni. Þegar er farið að hlakka til næstu keppni á næsta skólaári.
Lesa meira

Opnað fyrir umsóknir í vetrarfrístund

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í frístundaheimili grunnskólanna fyrir 1. – 4. bekkinga skólaárið 2025 – 2026. Sótt er um í gegnum www.mittreykjanes.is, þar er hlekkur í umsóknarkerfi sem heitir Vala frístund. Inn í Völu geta foreldrar séð allt sem tengist umsókninni. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Reykjanesbæjar.
Lesa meira

Skertur nemendadagur 14. maí

Miðvikudagurinn 14. maí er skertur nemendadagur í Njarðvíkurskóla. Nemendur í 1.-6. bekk mæta 8:15 og skóla lýkur 10:35. Frístundaheimili skólans tekur þá við hjá þeim nemendum sem eru skráðir þar. Nemendur eru hjá umsjónarkennara í heimastofum þessa tíma og unnið er að námsmati auk annars. Nemendur í 7.-10. bekk mæta kl. 8:15 í lokapróf eftir próftöflu sem er á heimasíðu skólans. Nemendur í 7. og 8. bekk taka stærðfræðipróf og nemendur í 9. og 10. bekk taka íslenskupróf. Nemendur hafa próftíma til kl. 10:00 og lýkur skóladeginum þá. Hefðbundinn skóladagur er hjá nemendum í Ösp sem og frístundastarf þennan dag.
Lesa meira

Skólahreysti 2025

Keppnislið Njarðvíkurskóla í Skólahreysti tók þátt í skólahreysti og endaði í 4. sæti í sínum riðli í ár. Lið Njarðvíkurskóla skipuðu þau Kristinn Einar Ingvason, Karen Ósk Lúthersdóttir, Logi Örn Logason og Hafdís Inga Sveinsdóttir. Dagbjört Dóra Kristmannsdóttir og Viktor Leó Elísasson voru varamenn. Hafdís Inga setti glæsilegt skólamet í að hanga á slá þar sem hún hékk í 11 mínútur og 11 sekúndur, með því bætti hún met með systur sinnar Elvu Lísu frá árinu 2013 um þrjár sekúndur. Þá tók hún líka þátt í armbeygjum og gerði 32 slíkar. Logi Örn tók þátt í upphýfingum og dýfum þar sem hann var með 26 upphýfingar og 14 dýfur. Þá tóku Kristinn Einar og Karen Ósk þátt í þrautabraut þar sem þau kláruðu brautina á 3 mínútum og 3 sekúndum. Liðið stóð sig því með prýði og voru vel studd áfram af fjölmörgum og eldhressum áhorfendum frá Njarðvíkurskóla.
Lesa meira

Íþróttadagur Njarðvíkurskóla

Það var líf og fjör í Njarðvíkurskóla í dag, 30. apríl, en þá fór fram árlegur íþróttadagur skólans. Íþróttadagurinn fer þannig fram að allir bekkir skólans keppa í ýmsum þrautum. Þrautirnar í ár voru bæði hefðbundnar og óhefðbundnar. Hver bekkur var með sinn lit og setti það skemmtilegan brag á daginn. Að lokum var íþróttabekkur Njarðvíkurskóla krýndur en það er sá bekkur sem fékk flest stig í keppnum dagsins. Í ár voru það nemendur í 10. ÞBI sem unnu bikarinn góða. 8. US endaði í 2. sæti og 9.HH í 3. sæti.
Lesa meira

Próf í 7.-10. bekk

Líkt og undanfarin ár setjum við upp próftöflu fyrir yfirlitspróf í íslensku, stærðfræði og ensku fyrir 7.-10. bekk. Á meðfylgjandi mynd má sjá próftöflu ásamt því hvaða daga sjúkrapróf eru fyrir þessi próf.
Lesa meira