25.09.2025
Aðalfundur foreldrafélags Njarðvíkurskóla verður haldinn á sal skólans þriðjudaginn 7. október nk. kl. 17:00-18:00.
Dagskrá er eftirfarandi:
- skýrsla stjórnar
- ársreikningur
- kosning nýrrar stjórnar
- kosning formanns
- önnur mál
Í framhaldi af aðalfundi verður samtal um störf bekkjarfulltrúa. Stjórn foreldrafélagsins hefur ákveðið að stutt verði við bekkjarviðburði með bekkjarsjóði og munum við kynna fyrirkomulagið á fundinum. Við hvetjum bekkjarfulltrúa til að taka þátt í samtalinu og ræða hugmyndir og mögulega viðburði.
Bestu kveðjur,
foreldrafélag Njarðvíkurskóla
Lesa meira
24.09.2025
Njarðvíkurskóli tekur virkan þátt í lýðheilsu- og forvarnarviku Reykjanesbæjar.
Í vikunni 29. september til 3. október mun nemendaráð Njarðvíkurskóla vera með fjölbreytta dagskrá í frímínútum og hádegishléi. Við fáum Flotann og Samfélagslögguna í heimsókn á mið- og unglingastig og skólahjúkrunarfræðingur heimsækir yngsta stig með fræðslu. Nemendur í 9. bekk taka þátt í forvarnardeginum þar sem nemendur skoða niðurstöður nýjustu rannsókna á þeirra aldurshóp og vinna verkefni um jákvæð áhrif samveru, íþrótta- og tómstundaiðkunar á líf þeirra.
Skólinn er þátttakandi í verkefninu Göngum í skólann og hvetjum við alla nemendur og starfsfólk til að nýta sér virkan ferðamáta og koma gangandi eða hjólandi í skólann. Nemendur sem ekki eru í ávaxtaáskrift eru hvattir til að koma með hollt nesti í skólann og kennarar hvattir til að ljúka síðustu kennslustund fyrir hádegishlé með slökun/hugleiðslu. Fara með nemendur í vettvangsferðir/útinám í vikunni t.d. ratleik, umferðafræðslu eða annað og nýta lífsleiknitíma í slökun/hreyfingu/hópefli/umræður um andlega líðan.
Með þessu viljum við efla vellíðan, samveru og heilbrigðan lífstíl nemenda og starfsfólks. Við hlökkum til virkrar þátttöku og skemmtilegrar viku í anda lýðheilsu og forvarna.
Lesa meira
20.09.2025
Þriðjudaginn 23. september er starfsdagur í Njarðvíkurskóla. Allir nemendur eiga frí þennan dag.
Frístundaheimili yngri nemenda og frístund í Ösp eru lokuð þennan dag.
Lesa meira
18.09.2025
Nemendur Njarðvíkurskóla tóku þátt í hinu árlega Ólympíuhlaupi ÍSÍ í dag, 18. september. Hlaupið tókst vel þrátt fyrir smá kulda en hlaupið var í fallegu veðri.
Markmið hlaupsins var að hvetja nemendur til aukinnar hreyfingar og útiveru, ásamt því að undirstrika mikilvægi reglulegrar líkamsræktar fyrir heilsu og vellíðan. Með þátttöku sinni sýndu nemendur að þeir skildu mikilvægi þess að hreyfa sig og reyna á líkamann.
Ólympíuhlaupið er góð áminning um að hreyfing er ekki aðeins heilsusamleg heldur getur líka verið skemmtileg og gefandi reynsla fyrir alla.
Lesa meira
07.09.2025
Starfsfólk InfoMentor hefur tekið saman algengustu spurningar og svör fyrir InfoMentor kerfið. Bæði er um að ræða algengar spurningar og svör ásamt handbókum og leiðbeiningum.
Handbækur fyrir aðstandendur á þremur tungumálum, íslensku, ensku og arabísku. Þar er einnig að finna tvær aðrar handbækur: Handbók fyrir nemendur og Aðstandendur - að byrja í skóla.
Lesa meira
05.09.2025
Vel heppnaður íþróttadagur var haldinn í Njarðvíkurskóla í dag, föstudag, þar sem nemendur tóku þátt í fjölbreyttum íþróttakeppnum. Dagurinn einkenndist af mikilli gleði og keppnisanda þar sem bekkir kepptu sín á milli í ýmsum skemmtilegum greinum.
Íþróttakennarar skólans skipulögðu daginn af mikilli fagmennsku og tókst framkvæmdin einstaklega vel. Keppt var í margvíslegum greinum sem reyndu bæði á líkamlega færni og útsjónarsemi nemenda. Meðal keppnisgreina má nefna þriggja stiga keppni, stígvélaspark, gangahlaup og upphýfingar, sem allar reyndu á ólíka styrkleika nemenda.
Yngstu nemendurnir í 1.-5. bekk fóru á milli stöðva þar sem þau reyndu fyrir sér á fjölbreyttum stöðvum þar sem aðalatriðið var að hafa gaman og allir finndu eitthvað við sitt hæfi.
Í 6.-10. bekk var sama fyrirkomulag þar sem farið var á milli stöðva en sett upp keppni á milli bekkja. Keppnin var afar spennandi og jöfn fram á síðustu stundu. Stemningin var rafmögnuð þegar úrslitin voru tilkynnt, en að lokum stóð 10. bekkur grænn uppi sem sigurvegari. Í öðru sæti var 7.FSM og 9.US hreppti þriðja sætið eftir hörkukeppni.
Íþróttadagurinn er fastur liður í skólastarfinu og mikilvægur þáttur í heilsueflingu skólans og stuðlar að aukinni hreyfingu og félagslegri samkennd nemenda. Dagurinn undirstrikaði mikilvægi þess að nemendur fái tækifæri til að takast á við fjölbreytt verkefni og upplifa sigra í mismunandi greinum.
Í meðfylgjandi myndasafni má sjá myndir af gleðinni og fjörinu sem var í Njarðvíkurskóla í dag.
Lesa meira
04.09.2025
Ljósanótt í Reykjanesbæ var sett í dag, fimmtudag þar sem nemendur og starfsfólk Njarðvíkurskóla tóku virkan þátt, sem hófst með því að Ljósanæturfáninn var dreginn að húni við skólann. Það voru þau Karen Ósk og Vilberg Eldon,formaður og varaformaður nemendafélagsins, sem drógu fánann að húni.
Stemningin var sérlega hátíðleg þegar nemendur úr 3., 7. og 10. bekk gengu fylktu liði í skrúðgarðinn í Keflavík þar sem formleg setning hátíðarinnar fór fram. Þar skemmtu þau sér undir glæsilegum skemmtiatriðum, þar sem meðal annars komu fram VÆB bræður og sungið var ljósanæturlagið ásamt því að hátíðin sjálf var formlega sett.
Eftir hádegi var haldið glæsilegt Ljósanæturball í íþróttahúsinu þar sem nemendur dönsuðu og skemmtu sér konunglega undir stjórn nemendafélagsins sem sáu um að skipuleggja ballið. Var skemmtilegt að sjá hvað allir nemendur voru glöð og virkir þátttakendur í dans og söng.
Lesa meira
02.09.2025
Föstudaginn 5. september er íþróttadagur í Njarðvíkurskóla. Þetta er skertur nemendadagur samkvæmt skóladagatali og verða bekkir saman með umsjónarkennurum. Nemendur taka þátt í fjölbreyttum þrautum og leikjum sem miða að því að efla liðsheild, hreyfingu og skemmtilega stemningu í skólanum.
Allir nemendur mæta kl. 8:15 og skóladeginum lýkur kl. 11:15 hjá nemendum í 1.-5. bekk og kl. 12:00 hjá nemendum í 6.-10. bekk.
Að loknum skóladegi geta skráðir nemendur borðað hádegismat frá Skólamat kl. 11:15 eða kl. 12:00, eftir því hvenær þeirra skóla lýkur.
Frístundaheimili er hjá skráðum nemendum frá kl. 11:15 til 16:15.
Hver bekkur hefur sinn lit og hvetjum við nemendur til að mæta í fatnaði í viðeigandi litum. Það styrkir liðsheildina og bætir stemninguna í skólanum.
Litir bekkja og hópa:
- 1.bekkur - Gulur
- 2.bekkur - Rauður
- 3.bekkur - Grænn
- 4.bekkur - Blár
- 5.bekkur - Bleikur
- 6.BÖH - Fjólublár
- 6.THT - Rauður
- 7.FSM - Bleikur
- 7.KE - Blár
- 8.GEH - Appelsínugulur
- 8.KR - Brúnn
- 9.US - Svartur
- 9.TG - Grár
- 9.MRF - Hvítur
- 10.Gulur - Gulur
- 10.Grænn - Grænn
Lesa meira
02.09.2025
Nú styttist í hina árlegu Ljósanæturhátíð og viljum við koma á framfæri upplýsingum um dagskrá í Njarðvíkurskóla tengda hátíðinni.
Þriðjudagur 2. september:
Söngur á sal þar sem nemendur hittast og syngja lög tengd Ljósanótt.
Fimmtudagur 4. september:
Karen Ósk Lúthersdóttir formaður nemendaráðs og Vilberg Eldon Logason varaformaður draga að húni Ljósanæturfánann við skólann kl. 8:20.
Nemendur í 3., 7. og 10. bekk taka þátt í setningu Ljósanætur í Skrúðgarðinum við Sólvallargötu kl.10:30-11:15. Nemendur í 3. bekk fara með strætó en nemendur í 7. og 10. bekk ganga.
Ljósanæturdanspartý á skólalóð Njarðvíkurskóla kl.12:40-13:20 fyrir nemendur í 1.-10. bekk. Nemendaráð skólans stýrir tónlist og dansi.
Dagskrá í skrúðgarði:
Halla Karen Guðjónsdóttir viðburðastjóri aðstoðar við uppstillingu og kynnir dagskrá.
Bæjarstjóri ávarpar hópinn og setur Ljósanótt formlega.
Formaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar dregur Ljósanæturfánann að húni. Marglitur fáninn táknar fjölbreytileika íbúa Reykjanesbæjar og nemenda.
VÆB stýrir fjöldasöng með krökkunum.
Allir syngja saman lag og texta Ásmundar Valgeirssonar, "Velkomin á Ljósanótt".
Við hvetjum bæði nemendur og starfsfólk til að mæta í einhverju grænu í skólann bæði 2. og 4. september.
Lesa meira
01.09.2025
Verkefnið Göngum í skólann verður sett í nítjánda sinn þann 3. september n.k. og munum við í Njarðvíkurskóla taka þátt líkt og undanfarin ár, en verkefninu lýkur svo formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 1. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.
Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskautar, hjólabretti eða annað. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.
Njarðvíkurskóli er heilsueflandi grunnskóli og með þátttöku okkar í verkefninu Göngum í skólann viljum við hvetja bæði nemendur og starfsfólk til að nýta tækifærið og fara ferða sinna sem oftast gangandi eða hjólandi í skólann. Við leggjum áherslu á öryggi nemenda í umferðinni og mikilvægi þess að nota hjálma þegar ferðast er um á hjólum.
Verum opin og jákvæð fyrir verkefninu og nýtum haustið til að vekja athygli á hreyfingu og öryggi barna okkar á leiðinni í skólann.
Nokkur heilræði fyrir foreldra og nemendur í skólabyrjun:
Æfum leiðina í og úr skóla saman
Veljum öruggustu leiðina í skólann – ekki stystu
Leggjum tímanlega af stað, ekki flýta sér
Kennum barninu að fara yfir götu, með og án ljósastýringar
Verum sýnileg, notum endurskinsmerki
Notum hjólreiðahjálm, bæði börn og fullorðnir
Tökum tillit til annarra vegfarenda, sérstaklega í nánd við skóla
Við viljum einnig benda forráðamönnum á áhugaverðar síður sem tengjast verkefninu og umferðaröryggi.
www.gongumiskolann.is.
https://umferd.is/grunnskoli/
Öruggasta leiðin í skólann (Úti í umferðinni)
https://www.youtube.com/watch?v=qFYOGfDt0_g&t=184s
Lesa meira