Fréttir

Íþróttakeppni milli nemenda í 10. bekk og starfsfólks

Hin árlega íþróttakeppni milli starfsfólks og nemenda í 10. bekk fór fram í íþróttahúsi skólans í dag við mikla stemningu. Hefð er fyrir því að strákar keppi í fótbolta og stelpur í körfubolta og var engin undantekning á því í ár. Íþróttahúsið var þétt setið þegar keppnin hófst með körfuboltaleik stelpnanna. Stuðningsmenn beggja liða létu vel í sér heyra og hvöttu sín lið áfram af mikilli innlifun. Leikurinn var gríðarlega spennandi og jafn framan af, en nemendurnir sýndu frábæra samvinnu og náðu smám saman yfirhöndinni. Lokatölur urðu 19-16 fyrir nemendur, sem fögnuðu sigrinum innilega. Í kjölfarið hófst fótboltaleikur strákanna, þar sem starfsfólk sýndi að reynslan skilar sínu. Þrátt fyrir að nemendurnir hafi lagt hart að sér og sýnt lipra takta, þá nýtti starfsfólkið færin sín betur og unnu öruggan 4-2 sigur. Stemningin í húsinu var rafmögnuð allan tímann og skemmtu áhorfendur sér konunglega. Keppnin endaði því með jöfnu þar sem hvort lið vann sinn leik. Það var einróma álit allra að viðburðurinn hafi heppnast frábærlega og styrkt enn frekar góð samskipti milli nemenda og starfsfólks. ,,Þetta var frábær dagur og mikilvæg áminning um hvað íþróttir geta verið góð leið til að efla skólaandann," sagði íþróttakennari skólans að keppni lokinni. Þegar er farið að hlakka til næstu keppni á næsta skólaári.
Lesa meira

Opnað fyrir umsóknir í vetrarfrístund

Opnað hefur verið fyrir umsóknir í frístundaheimili grunnskólanna fyrir 1. – 4. bekkinga skólaárið 2025 – 2026. Sótt er um í gegnum www.mittreykjanes.is, þar er hlekkur í umsóknarkerfi sem heitir Vala frístund. Inn í Völu geta foreldrar séð allt sem tengist umsókninni. Nánari upplýsingar eru á heimasíðu Reykjanesbæjar.
Lesa meira

Skertur nemendadagur 14. maí

Miðvikudagurinn 14. maí er skertur nemendadagur í Njarðvíkurskóla. Nemendur í 1.-6. bekk mæta 8:15 og skóla lýkur 10:35. Frístundaheimili skólans tekur þá við hjá þeim nemendum sem eru skráðir þar. Nemendur eru hjá umsjónarkennara í heimastofum þessa tíma og unnið er að námsmati auk annars. Nemendur í 7.-10. bekk mæta kl. 8:15 í lokapróf eftir próftöflu sem er á heimasíðu skólans. Nemendur í 7. og 8. bekk taka stærðfræðipróf og nemendur í 9. og 10. bekk taka íslenskupróf. Nemendur hafa próftíma til kl. 10:00 og lýkur skóladeginum þá. Hefðbundinn skóladagur er hjá nemendum í Ösp sem og frístundastarf þennan dag.
Lesa meira

Skólahreysti 2025

Keppnislið Njarðvíkurskóla í Skólahreysti tók þátt í skólahreysti og endaði í 4. sæti í sínum riðli í ár. Lið Njarðvíkurskóla skipuðu þau Kristinn Einar Ingvason, Karen Ósk Lúthersdóttir, Logi Örn Logason og Hafdís Inga Sveinsdóttir. Dagbjört Dóra Kristmannsdóttir og Viktor Leó Elísasson voru varamenn. Hafdís Inga setti glæsilegt skólamet í að hanga á slá þar sem hún hékk í 11 mínútur og 11 sekúndur, með því bætti hún met með systur sinnar Elvu Lísu frá árinu 2013 um þrjár sekúndur. Þá tók hún líka þátt í armbeygjum og gerði 32 slíkar. Logi Örn tók þátt í upphýfingum og dýfum þar sem hann var með 26 upphýfingar og 14 dýfur. Þá tóku Kristinn Einar og Karen Ósk þátt í þrautabraut þar sem þau kláruðu brautina á 3 mínútum og 3 sekúndum. Liðið stóð sig því með prýði og voru vel studd áfram af fjölmörgum og eldhressum áhorfendum frá Njarðvíkurskóla.
Lesa meira

Íþróttadagur Njarðvíkurskóla

Það var líf og fjör í Njarðvíkurskóla í dag, 30. apríl, en þá fór fram árlegur íþróttadagur skólans. Íþróttadagurinn fer þannig fram að allir bekkir skólans keppa í ýmsum þrautum. Þrautirnar í ár voru bæði hefðbundnar og óhefðbundnar. Hver bekkur var með sinn lit og setti það skemmtilegan brag á daginn. Að lokum var íþróttabekkur Njarðvíkurskóla krýndur en það er sá bekkur sem fékk flest stig í keppnum dagsins. Í ár voru það nemendur í 10. ÞBI sem unnu bikarinn góða. 8. US endaði í 2. sæti og 9.HH í 3. sæti.
Lesa meira

Próf í 7.-10. bekk

Líkt og undanfarin ár setjum við upp próftöflu fyrir yfirlitspróf í íslensku, stærðfræði og ensku fyrir 7.-10. bekk. Á meðfylgjandi mynd má sjá próftöflu ásamt því hvaða daga sjúkrapróf eru fyrir þessi próf.
Lesa meira

Stóri plokkdagurinn 2025

Stóri Plokkdagurinn í Njarðvíkurskóla var tekinn með trompi föstudaginn 25.apríl og tvær fyrstu kennslustundir föstudagsins fóru í þetta verkefni. Nemendur og starfsfólk sameinuðust í því að plokka allt rusl í nærumhverfi skólans með góðum árangri. Dugnaður og drifkraftur hjá þessu flotta fólki var til fyrirmyndar og gaman að geta tekið þátt í þessu landsátaki með svo kraftmiklum hætti.
Lesa meira

Sumarfrístund fyrir börn fædd 2019 - Skráning hafin

Frístundaheimili grunnskólanna (Sumarfrístund), fyrir tilvonandi 1. bekkinga (börn fædd 2019), verða opin frá 11. ágúst til skólasetningar. Markmiðin með þessari opnun eru m.a. að brúa bilið milli leik- og grunnskólagöngu nemenda, að aðlögun nýrra leikskólabarna geti hafist sem fyrst að hausti og að aðlaga tilvonandi 1. bekkinga í grunnskólann sinn.
Lesa meira

Páskafrí 2025

Páskafrí í skólanum hefst mánudaginn 14. apríl. Kennsla hefst aftur samkvæmt stundaskrá þriðjudaginn 22. apríl. Við óskum öllum nemendum og forráðamönnum gleðilegra páska og vonum að þið njótið vel yfir hátíðarnar. Við hlökkum til að taka á móti öllum endurnærðum og tilbúnum í lokasprett skólaársins.
Lesa meira

Skóladagatal fyrir skólaárið 2025-2026

Skóladagatal Njarðvíkurskóla og Ösp fyrir skólaárið 2025-2026 hefur verið birt og hægt er að nálgast það hér. Dagatalið hefur verið samþykkt af starfsfólki skólans, skólaráði og hjá menntaráði Reykjanesbæjar.
Lesa meira