Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í Njarðvíkurskóla

Dagur íslenskrar tungu er 16. nóvember á fæðingardegi skáldsins Jónasar Hallgrímssonar en þar sem 16. nóvember er á sunnudegi í ár var hann haldinn í Njarðvíkurskóla þann 14. nóvember.

Þessi árlegi viðburður er hefð í skólanum þar sem íslensku máli er gert enn hærra undir höfði en aðra daga og markar þessi dagur einnig upphafið að undirbúningi 7. bekkjar fyrir Stóru upplestrarkeppnina sem þau taka þátt í ár hvert og einnig hjá 4. bekk sem tekur þátt í Stóru upplestrarhátíðinni.

Hátíðin er tvískipt þar sem nemendur í 1.-6. bekk halda sína samkomu og síðan taka nemendur í 7.-10. bekk við. Þetta fyrirkomulag tryggir að allir fá tækifæri til að njóta atriðanna í hópi jafnaldra.

Karen Ósk og Vilberg Eldon, formaður og varaformaður nemendafélags skólans gegndu mikilvægu hlutverki sem kynnar hátíðarinnar og leiddu gesti og nemendur í gegnum fjölbreytta dagskrá. Nokkur atriði voru sameiginleg á báðum hátíðum. Karen Gígja las upp æviágrip Jónasar Hallgrímssonar og Viktoría Sól las ljóðið Söknuður eftir Jónas Hallgrímsson, en þær eru nemendur í 8. KR og voru fulltrúar Njarðvíkurskóla í Stóru upplestrarkeppninni á síðasta skólaári. Allir nemendur sungu Íslenskuljóðið eftir Þórarinn Eldjárn við lag Atla Heimis Sveinssonar og í lok beggja hátíða var skólasöngur Njarðvíkurskóla sunginn, ljóðið samdi Gylfi Guðmundsson fyrrum skólastjóri Njarðvíkurskóla og lagið er eftir Rúnar Júlíusson.

Sérstakir heiðursgestir hátíðarinnar eru börn af leikskólanum Gimli og er þetta átjánda árið í röð sem þau koma til okkar og flytja atriði. Þessi hefð undirstrikar samfellu og tengsl milli leik- og grunnskóla og sýnir hversu mikilvægt það er að hlúa að íslenskri tungu allt frá unga aldri.

Dagur íslenskrar tungu í Njarðvíkurskóla er ekki aðeins hátíðarstund heldur einnig tækifæri til að vekja áhuga nemenda á íslensku máli, bókmenntum og menningararfi þjóðarinnar.

Dagskrá yngra stigs í ár var:

- Tónlistaratriði frá Rúnu Valgerði nemenda úr 4. bekk Njarðvíkurskóla og Tónlistarskóla Reykjanesbæjar þar sem hún flutti lagið Kúrekasöngur eftir Lars Axelsson á klarínett.

- Nemendur úr 1. bekk sungu lögin Íslenska stafrófið og Buxur, vesti, brók og skó eftir Jónas Hallgrímsson.

- Nemendur af leikskólanum Gimli fluttu lagið Elsku heimur en lag og texti er eftir Braga Valdimar Skúlason.

- Nemendur úr 4. bekk flutti lagið Draumar geta ræst eftir Jón Jónsson

- Nemendur úr 6. bekk flutti frumsamið ljóð sem heitir Njarðvíkurskóli er bestur þar sem þau sömdu ljóð um skólann sinn og starfsfólk skólans.

- Nemendur úr 2. bekk sungu lagið Á Sprengisandi og fóru með mánaðarþuluna.

Dagskrá eldra stigs í ár var:

- Alan Boguniecki, Bríet Silfá Möller og Jökull Gautason nemendur úr 9. bekk fluttu ljóðið Ég ætla mér að yrkja eftir Jónas Hallgrímsson.

- Sýndar voru 2 stuttmyndir sem nemendur úr 10. bekk höfðu gert. Nemendur í 10. bekk lesa Gísla sögu Súrssonar og hluti af þeirra námsmati er að útbúa stuttmynd þar sem Gísla saga er færð til nútímans.

- Nemendaráð skólans lauk svo deginum með spurningakeppni milli nemenda og starfsfólks skólans.