Dagskrá í tengslum við Ljósanótt 31. ágúst 2023

Ljósanótt 2023
Ljósanótt 2023

Fimmtudaginn 31. ágúst kl. 9:35 munu Frosti Kjartan Rúnarsson formaður nemendaráðs og Ragna Talía Magnúsdóttir varaformaður draga að húni Ljósanæturfánann við Njarðvíkurskóla.

Nemendur í 3. bekk og 7. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar taka þátt í setningu Ljósanætur í Skrúðgarðinum við Sólvallargötu kl. 10:30- 11:15. Nemendur í 3. bekk fara með strætó báðar leiðir en nemendur í 7. bekk ganga.

Dagskrá í skrúðgarði er eftirfarandi:
-Bryndís Guðmundsdóttir grunnskólafulltrúi stýrir dagskrá.
-Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri ávarpar hópinn og setur Ljósanótt formlega.
-Ljósanæturfáni er dreginn að húni stóru hátíðarflaggstangarinnar í garðinum. Fáninn er marglitur og táknar hann fjölbreytileika íbúanna í Reykjanesbæ og nemenda okkar.
-Formaður ungmennaráðs Reykjanesbæjar dregur fánann að húni og er þá hátíðin formlega sett.
-Friðrik Dór stýrir fjöldasöng.
-Að lokum syngja allir lagið, Velkomin á Ljósanótt eftir Ásmund Valgeirsson.

Kl. 12:40-13:10 verður haldið Ljósanæturdanspartý í Njarðvíkurskóla fyrir nemendur í 1.-10. bekk og elstu nemendur á leikskólanum Gimli (heimaleikskóli Njarðvíkurskóla) á skólalóð Njarðvíkurskóla. Nemendaráð Njarðvíkurskóla mun stýra tónlistinni og dansinum og stendur nemendum til boða að fá andlitsmálingu.

Við hvetjum bæði nemendur og starfsmenn til að mæta í einhverju grænu í skólann á morgun fimmtudaginn 31. ágúst.