Flöskuskeyti frá 2016 fannst á Snæfellsnesi

Nemendur í 5. HF og 5. ÁB sem voru í textílmennt 24. febrúar 2016 bjuggu til flöskuskeyti. Síðan var sjómaðurinn Þórólfur Júlían Dagsson fenginn til að sleppa fjórum flöskum í sjóinn út frá Garðskaga af línubátnum Ólafi Gíslasyni nokkrum dögum síðar. Hugmyndin kom upp eftir að Ævar vísindamaður setti út tvö flöskuskeyti þann 10. janúar sama ár.

Á miðvikudaginn barst Njarðvíkurskóla bréf frá nemendum í 2. bekk í Grunnskóla Snæfellsbæjar á Hellisandi þar sem kom fram að nemandi í bekknum hafi fundið flöskuskeytið á göngu með afa sínum um tvo kílómetra norðan Hólahóla á Snæfellsnesi um mánaðarmótin apríl/maí. Okkar nemendur voru ánægðir og jafnframt hissa að flöskuskeytið þeirra hafi fundist og þökkum nemendum í Snæfellsbæ fyrir að hafa látið okkur vita.