Hvatningarverðlaun menntaráðs Reykjanesbæjar 2024

Kristín Blöndal, Linda Birgisdóttir, Eygló Alexandersdóttir, Andrea Ösp Böðvarsdóttir, Sara Dögg Mar…
Kristín Blöndal, Linda Birgisdóttir, Eygló Alexandersdóttir, Andrea Ösp Böðvarsdóttir, Sara Dögg Margeirsdóttir og Jóhanna Ósk Kristinsdóttir.

Hvatningarverðlaun menntaráðs Reykjanesbæjar voru afhent í Bíósal Duus við hátíðlega athöfn þann 30. maí 2024. Alls bárust 13 tilnefningar og voru verkefnin fjölbreytt að vanda.

Að þessu sinni urðu tvö verkefni jöfn og hlutu þau því bæði Hvatningarverðlaunin. Um er að ræða verkefnin Faglegt og fjölbreytt starf í Öspinni í Njarðvíkurskóla og Lindin – stofnun og þróun sértæks námsúrræðis í Akurskóla. Að auki hlaut verkefnið Allir í skólann – snemmtæk íhlutun vegna skólaforðunar í Holtaskóla sérstaka viðurkenningu.

Faglegt og fjölbreytt starf í Ösp:
Við tilnefnum sérdeildina Ösp við Njarðvíkurskóla og það faglega og fjölbreytta starf sem þar er unnið. Deildin var stofnum árið 2002 og er hugsuð fyrir nemendur í 1.-10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem þurfa á sértæku námsúrræði að halda og eru nemendur teknir inn í deildina að undan gengum inntökufundi. Deildin sinnir nemendum með miklar stuðningsþarfir. Í dag eru 25 nemendur skráðir í deildina og er deildin vel mönnuð fagfólki en þar starfa auk deildarstjóra, sérkennarar, þroskaþjálfar, atferlisfræðingar, sálfræðingur/sérfræðingur, félagsliðar og almennir starfsmenn skóla. Nemendur tilheyra allir ákveðnum umsjónarbekk í Njarðvíkurskóla og sækja tíma með bekkjafélögum eins og kostur er, allt eftir styrkleika hvers og eins. Allt starf deildarinnar miðar að því að hafa velferð nemenda að leiðarljósi í allri skipulagningu á námi þeirra og er unnið eftir einstaklingsáætlun þar sem lögð er áhersla á tjáningu, lestur, stærðfræði, skynnám, félagsfærni og athafnir daglegs lífs. Þegar skóla lýkur er boðið upp á frístundaúrræði til kl. 16:15. Starfsemi deildarinnar tekur mið af þeim nemendahópi sem er þar hverju sinni og tekur þátt í þeim stóru verkefnum sem verið er að vinna að í Njarðvíkurskóla en verkefnin eru aðlöguð að nemendahópi í Ösp. Við viljum sérstaklega nefna nú árshátíðaratriði frá Ösp en hópur nemenda úr Ösp var með skemmtilegt atriði á árshátíð Njarðvíkurskóla sem þeir sýndu einnig á Hæfileikahátíð barna í Stapa sem var hluti af barnahátíð Reykjanesbæjar/BAUN. Mikil vinna er hjá starfsfólki í Ösp allt skólaárið að vinna með nemendum að framgangi slíks atriðis og voru margir sigrar unnir reglulega hjá nemendur sem gerðu þeim kleift að koma fram og sýna sitt atriði. Atriðið var unnið á einstaklega skemmtilegan hátt með einlægni og gleði að leiðarljósi. Gaman var einnig að sjá viðbrögð forráðamanna sem voru klökkir og stoltir af sínu barni, að sjá það blómstra í slíku verkefni. Það er því með stolti sem við tilnefnum Ösp sérdeild til Hvatningaraverðlauna Reykjanesbæjar.

Rökstuðningur:
Margir litlir sigrar eru unnir í Ösp á hverjum degi enda er starfið allt framúrskarandi faglegt og vel skipulagt. Það er einnig öðrum til eftirbreytni að sjá hvernig allir sem þar starfa í krefjandi umhverfi vinna að því að mæta ólíkum þörfum nemenda á sem fjölbreytilegastan hátt. Við finnum líka svo vel að horft til starfsemi í Ösp frá öðrum utanaðkomandi fagaðilum og fær starfsemin hrós víða.

Þau sem standa að verkefninu: Kristín Blöndal, Linda Birgisdóttir, Andrea Ösp Böðvarsdóttir, Eygló Alexandersdóttir, Heiðdís Inga Halldórsdóttir, Jóhanna Ósk Kristinsdóttir, Sara Dögg Margeirsdóttir.

Frétt frá Reykjanesbæ - Afhending Hvatningarverðlaunanna 2024 | Upplýsingavefur sveitarfélagsins Reykjanesbæjar (reykjanesbaer.is)