10. grænir sigurvegarar íþróttadags
Vel heppnaður íþróttadagur var haldinn í Njarðvíkurskóla í dag, föstudag, þar sem nemendur tóku þátt í fjölbreyttum íþróttakeppnum. Dagurinn einkenndist af mikilli gleði og keppnisanda þar sem bekkir kepptu sín á milli í ýmsum skemmtilegum greinum.
Íþróttakennarar skólans skipulögðu daginn af mikilli fagmennsku og tókst framkvæmdin einstaklega vel. Keppt var í margvíslegum greinum sem reyndu bæði á líkamlega færni og útsjónarsemi nemenda. Meðal keppnisgreina má nefna þriggja stiga keppni, stígvélaspark, gangahlaup og upphýfingar, sem allar reyndu á ólíka styrkleika nemenda.
Yngstu nemendurnir í 1.-5. bekk fóru á milli stöðva þar sem þau reyndu fyrir sér á fjölbreyttum stöðvum þar sem aðalatriðið var að hafa gaman og allir finndu eitthvað við sitt hæfi.
Í 6.-10. bekk var sama fyrirkomulag þar sem farið var á milli stöðva en sett upp keppni á milli bekkja. Keppnin var afar spennandi og jöfn fram á síðustu stundu. Stemningin var rafmögnuð þegar úrslitin voru tilkynnt, en að lokum stóð 10. bekkur grænn uppi sem sigurvegari. Í öðru sæti var 7.FSM og 9.US hreppti þriðja sætið eftir hörkukeppni.
Íþróttadagurinn er fastur liður í skólastarfinu og mikilvægur þáttur í heilsueflingu skólans og stuðlar að aukinni hreyfingu og félagslegri samkennd nemenda. Dagurinn undirstrikaði mikilvægi þess að nemendur fái tækifæri til að takast á við fjölbreytt verkefni og upplifa sigra í mismunandi greinum.
Í meðfylgjandi myndasafni má sjá myndir af gleðinni og fjörinu sem var í Njarðvíkurskóla í dag.