Kristín Arna og Hildigunnur Eir stóðu sig vel á lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar

Miðvikudaginn 11. mars fór lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar í Reykjanesbæ fram í Bergi, Hljómahöll í 23. sinn. Það eru nemendur í 7. bekk úr grunnskólum Reykjanesbæjar sem taka þátt í keppninni ár hvert.

Það er óhætt að segja að okkar keppendur, þær Kristín Arna Gunnarsdóttir og Hildigunnur Eir Kristjánsdóttir hafi staðið sig með prýði og voru sjálfum sér og sínum skóla til mikils sóma.

 Ástríður Auðbjörg Halldórsdóttir og Birna Rós Daníelsdóttir voru fulltrúar Njarðvíkurskóla í tónlistaratriðum og stóðu sig frábærlega.

Sigurvegari í stóru upplestrarkeppninni í ár er Alexander Freyr Sigvaldason úr Akurskóla og í öðru sæti lenti Thelma Helgadóttir úr Myllubakkaskóla og í því þriðja Margrét Júlía Jóhannsdóttir úr Holtaskóla.