Njarðvíkurskóli fékk styrk frá Forriturum framtíðarinnar

Í haust hlaut Njarðvíkurskóli styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar. Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla og auka áhuga á forritun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins. Njarðvíkurskóli fékk námskeiðsstyrk til forritunar- og tæknikennslu.

Njarðvíkurskóli nýtir styrkinn til að efla starfsmenn og nemendur í forritun. Úlfur Atlason verkefnastjóri og Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir frá Skema hjá Háskólanum í Reykjavík voru með námskeið fyrir starfsmenn á starfsdeginum í gær. Þar fengu starfsmenn þjálfun í forritun sem þeir geta svo nýtt í framhaldi fyrir okkar nemendur. Lögð var áhersla á að sérsníða námskeiðin að búnaðinum sem við eigum í skólanum og var mikil ánægja með námskeiðin.

Í framhaldi mun Úlfur og Gunnhildur koma inn í nokkur skipti í kennslu hjá 5. og 6. bekk með forritunarkennslu þar sem kennarar og stuðningsfulltrúar munu taka virkan þátt í kennslustundinni og fá jafnhliða nemendum þjálfun í forritun.

Hlutverk sjóðsins „Forritarar framtíðarinnar”
Hollvinir sjóðsins leggja sjóðnum lið með peningaframlögum og tækjabúnaði s.s. tölvum. Grunn- og framhaldskólar geta sótt um styrki í sjóðinn. Ísland stendur frammi fyrir þeirri staðreynd að það er skortur á upplýsingatæknimenntuðu fólki í landinu. Háskólar útskrifa tæknimenntað fólk sem annar um það bil 50% eftirspurnar atvinnulífsins. Á næstu árum er því þörf fyrir að minnsta kosti 100% aukningu á þessu sviði til þess að brúa bilið. Upplýsingatæknigeirinn vex hraðar en aðrir geirar og má segja að nánast engin atvinnugrein sé án tækni. Jafnvel bóndi mjólkar með tölvum. Auk þess er mikill skortur á tækni- og tölvukennslu í grunn- og framhaldsskólum landsins. Þótt börn og unglingar verji miklum tíma í notkun tækni er nauðsynlegt að þau fái þá þjálfun og þekkingu sem þarf til þess að þau geti nýtt sér tækninaí víðari skilningi. Til að bregðast við ofangreindu er sjóðurinn „Forritarar framtíðarinnar” stofnaður.