Saumað fyrir umhverfið - Ljósanótt verði plastlaus hátíð

Saumað fyrir umhverfið
Saumað fyrir umhverfið

Ljósanótt verður haldin í 20. sinn dagana 4. til 8. september. Ljósanótt í Reykjanesbæ var fyrst haldin árið 2000 og var þá einn dagur en nú nær hátíðin yfir tæpa viku. Virðing fyrir umhverfinu eykst sem betur fer með hverju árinu og nú er svo komið að stefnt er að því að halda „Plastlausa Ljósanótt“ árið 2019.

Hátíðin í ár er sérstaklega kynnt sem „Plastlaus Ljósanótt“ og er það liður í umhverfisátaki Reykjanesbæjar. Settar verða upp flokkunar ruslatunnur á hátíðarsvæðinu og íbúar keppast nú við að sauma margnota poka í pokastöð Bókasafnsins „Saumað fyrir umhverfið“ til að nota í verslunum í bæjarfélaginu. Vonast er til að sem flestir taki tillit til þessa átaks.

Njarðvíkurskóli tekur þátt í átakinu sem miðar að því að vekja nemendur til umhugsunar um ofnotkun plasts og skaðsemi plasts fyrir umhverfið. Nemendur í Njarðvíkurskóla hafa saumað fjölda margnota taupoka að undanförnu, en margnota taupokar geta auðveldlega komið í stað plastpoka.