Sérdeildin Ösp 20 ára

Sérdeildin Ösp 20 ára
Sérdeildin Ösp 20 ára

Sérdeildin Ösp við Njarðvíkurskóla var stofnuð haustið 2002 og fagnar því 20 ára afmæli á þessu skólaári. Í tilefni þess var afmælisboð í Ösp föstudaginn 12. maí með opnu húsi. Frábær mæting var þar sem stórfjölskyldur nemenda mættu á ásamt núverandi og fyrrverandi starfsmönnum, skólastjórnendum í Reykjanesbæ, starfsmönnum af Menntasviði Reykjanesbæjar og velunnurum.

Sérdeildin Ösp var stofnum þegar skólaúrræði vantaði í Reykjanesbæ fyrir nemendur sem gátu ekki nýtt sér almenna bekkjarkennslu. Deildin er hugsuð fyrir nemendur í 1.-10. bekk í grunnskólum Reykjanesbæjar sem þurfa á mjög sérhæfðu námsúrræði að halda.

Í Ösp eru á þessu skólaári eru 25 nemendur í 1.-10. bekk. Kristín Blöndal er deildarstjóri sem stýrir starfinu og auk hennar starfa í Ösp sérkennarar, þroskaþjálfar, sérfræðingar, félagsliðar og stuðningsfulltrúar. Íþróttakennarar og list- og verkgreinakennarar Njarðvíkurskóla koma einnig að kennslu nemenda í Ösp. Starfsmenn í Ösp vinna einnig náið með Menntasviði Reykjanesbæjar. Sérdeildinni er skipt í þrjár deildir, yngra stig, miðstig og eldra stig. Allir nemendur í Ösp tilheyra sínum umsjónarbekk í Njarðvíkurskóla og vinna starfsmenn að því að hafa velferð nemenda í fyrirrúmi í skipulagningu á náminu þeirra. Í Ösp er unnið eftir einstaklingsáætlunum og er meðal annars lögð áhersla á tjáningu, lestur, stærðfræði, skynnám, félagsfærni og athafnir daglegs lífs. Nemendur í Ösp sækja sérgreinatíma og aðra kennslustundir með sínum umsjónarbekk í Njarðvíkurskóla eins og kostur er. Þegar skóla lýkur er boðið upp á frístundarúræði fyrir nemendur í Ösp til 16:00. Ólöf Elín Rafnsdóttir umsjónarmaður frístundaheimilisins.

Fjórum sinnum hefur deildin verið stækkuð og nú síðast árið 2019. Deildin nýtur mikils velvilja grenndarsamfélagsins bæði fyrirtækja og félagssamtaka sem hafa verið dugleg að styrkja deildina í gegnum árin og þá gert starfsmönnum kleift að halda úti mjög metnaðarfullu starfi og kann starfsfólk Njarðvíkurskóla þeim aðilum bestu þakkir fyrir þeirra framlag.

Í Ösp er unnið mjög gott starf og er oft horft til sérdeildarinnar frá öðrum fagaðilum vegna þess metnaðarfulla og faglega starfs sem fer fram í deildinni og fær starfið mikið hrós frá utanaðkomandi fagaðilum.