Skólastarf frá áramótum samkvæmt nýrri reglugerð

Njarðvíkurskóli
Njarðvíkurskóli

Takmarkanir á skólahaldi verða rýmkaðar frá gildandi reglum samkvæmt nýrri reglugerð heilbrigðisráðherra sem gildir frá 1. janúar 2021 til og með 28. febrúar 2021.

Helstu breytingar í grunnskólum eru að frá og með 4. janúar getum við boðið öllum nemendum upp á kennslu samkvæmt stundaskrá án takmarkana í rýmum eða í mötuneyti. Kennsla í valgreinum, hefst 11. janúar.

Þetta þýðir að allir nemendur Njarðvíkurskóla mæta í skólann samkvæmt stundaskrá mánudaginn 4. janúar 2021 og frístundaheimilin verða opin til kl. 16.15 en ekki til kl. 15.30.

Aðrar helstu breytingar eru að nú er heimilt að hafa 20 starfsmenn saman í rými og þeim er heimilt að fara á milli hópa. Ef ekki er unnt að tryggja 2 metra reglu innandyra ber þeim að nota grímur. Í sameiginlegum rýmum, m.a. mötuneytum verður heimilt að víkja frá fjöldatakmörkun, að því gefnu að starfsfólk noti grímur. Þessar reglur gilda einnig um frístundaheimili, skipulagt íþrótta- æskulýðs- og tómstundastarf og um störf í félagsmiðstöðvum.

Við förum áfram varlega og hugum vel að hreinlæti og persónulegum sóttvörnum. Áfram verður mikilvægt fyrir okkur öll, börn og fullorðna, að mæta ekki í skólann með flensulík einkenni og aðgengi foreldra og annarra aðstandenda þarf eftir sem áður að vera takmarkað.

Starfsmenn Njarðvíkurskóla þakka samstarfið á árinu sem er að líða og óska öllum farsældar á nýju ári.