Veglegur styrkur í Ösp

Magnús Sverrir Þorsteinsson og Kristín Blöndal
Magnús Sverrir Þorsteinsson og Kristín Blöndal

Átta góðgerðarfélög og stofnanir á Suðurnesjum fengu veglega styrki eftir Góðgerðarfest Blue Car Rental sem haldið var 15. október. Alls söfnuðust rúmar fimmtán milljónir króna frá fyrirtækjum og einstaklingum samhliða Góðgerðarfestinu. Þeir aðilar og sjóðir sem fengu styrk eru Minningarsjóður Ölla, Minningarsjóður Ragga Margeirs, Hæfingarstöðin, Þroskahjálp á Suðurnesjum, Velferðarsjóður Suðurnesja, Ösp, Eik og Skjól. Styrkirnir voru að upphæð 1.875.000 krónur og voru afhentir þann 25. október og tóku fulltrúar styrkþeganna á móti þeim í húsakynnum Blue Car Rental í Reykjanesbæ. Blaðamaður Víkurfrétta settist niður með þremur fulltrúum styrkþeganna og heyrði í þeim hljóðið, meðal annars Kristínu Blöndal, deildarstjóra í Ösp:

Kristín Blöndal segir styrkinn þýða mikið fyrir þeirra starfsemi enda sé þörf á nýjum leikföngum, kennslugögnum og skynörvunar búnaði. „Þetta er frábær gjöf, það skiptir miklu máli að við njótum svo mikillar velvildar, það er í raun það sem starfsemin byggir á. Þetta er heldur betur rausnarlegt og þessir snillingar hjá Blue eiga heldur betur hrós skilið. Innra starfið styrkist svo mikið við það að fá ný kennslugögn og nú getum við aðeins leyft okkur að gera þetta í þágu barnanna, því þetta snýst allt um þau,“ segir Kristín.