Vináttuverkefni Barnaheilla í Njarðvíkurskóla

Á degi vináttunnar í Njarðvíkurskóla hófum við innleiðing á vináttuverkefni Barnaheilla. Verkefnið Vinátta er forvarnarverkefni gegn einelti og miðar að því að fyrirbyggja einelti með því að móta góðan skólabrag. Áhersla er lögð á gildi margbreytileikans, góð samskipti og jákvæð viðhorf til allra í hópnum. Verkefnið Vinátta byggir á nýjustu rannsóknum um einelti. Á þessum degi 8. nóvember sem helgaður er baráttu gegn einelti um land allt, hlaut verkefnið hvatningarverðlaun frá mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Krissi lögga og Lúlli löggubangsi tóku þátt í að kynna verkefnið þar sem þeir mættu með þrjá vini Lúlla sem komu alla leið frá Ástralíu til þess að hjálpa nemendum í 1. bekk að vera góðir skólafélagar. Hver bekkur fékk einn bangsa afhendan en Blær er boðberi vináttu og hjálpar til við að kenna efnið sem og hugga þegar við á. Unnið verður með umburðarlyndi, virðingu, umhyggju og hugrekki á fjölbreyttan hátt.

Verkefnið Vinátta er danskt að uppruna og nefnist Fri for mobberi á frummálinu. Um er að ræða námsefni sem gefið hefur verið út og er ætlað leikskólum og 1. – 3. bekk grunnskóla. Frá árinu 2016 hefur verkefnið staðið öllum leikskólum á Íslandi til boða. Í dag eru um 100 leikskólar þátttakendur í verkefninu. Nú hafa Barnaheill einnig gefið út efni sem ætlað er 1. – 3. bekk grunnskóla og verður unnið með það í tilraunaskyni í 15 grunnskólum í sex sveitarfélögum á yfirstandandi skólaári. Njarðvíkurskóli fagnar því að fá tækifæri til að taka þátt í þessu verkefni.

Mikil ánægja hefur verið með Vináttuverkefnið og hefur það gefið afar góða raun. Það er Njarðvíkurskóla sannkallaður heiður að vera tilraunarskóli í þessu verkefni. Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, er verndari Vináttuverkefnisins.

Hægt er að smella á myndina til að fara inn á hlekk um verkefnið.