Yngvi Þór fékk viðurkenningu fyrir áhugavert verkefni

Yngvi Þór Geirsson
Yngvi Þór Geirsson

Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar voru afhent í Duus við hátíðlega athöfn 13. júní. 

Yngvi Þór Geirsson fékk viðurkenningu fyrir áhugavert verkefni með verkefnið sitt; Fjármálafræðsla í 10. bekk. Um er að ræða frábært kennsluverkefni sem hefur fengið verðskuldaða athygli. Verkefnið var eitt af þremur verkefnum sem fékk þessa viðurkenningu en hvatningarverðlaunin fóru til Tjarnasels fyrir verkefnið: Gróðurhús í grænum skóla er áskorun og verkefni.

Yngvi Þór hefur kennt samfélagsgreinar í 10. bekk við Njarðvíkurskóla til fjölda ára og hefur fjármálafræðsla verið hluti af námsefni árgangsins. Fyrir nokkrum árum fór Yngvi að útbúa sitt eigið námsefni þar sem honum fannst það sem var í boði ekki henta nægilega vel og ekki vera í takt við samfélagið. Yngvi Þór hefur verið að þróa verkefnið jafnt og þétt frá þeim tíma. Markmiðið með fræðslunni er að kynna helstu fjármálahugtök fyrir nemendum, gera nemendur læsa á fjármál og að þau viti hvar og hvernig á að nýta sér upplýsingar og reiknivélar á netinu. Aðalmarkmiðið er að þau verði fjárhagslega sjálfstæð í framtíðinni og fari vel með peningana sína. Allt námsefni er sett upp á íslensku og ensku til að koma til móts við þá nemendur sem eru ekki nægilega vel að sér í íslensku.

Njarðvíkurskóli óskar Yngva Þór innilega til hamingju með viðurkenninguna.