Gjöf til Njarðvíkurskóla

Helgi, Sjöfn og Ævar
Helgi, Sjöfn og Ævar

Í Njarðvíkurskóla stýrir Sjöfn Sóley frímínútnaverkefni þar sem nemendur í 1.-6. bekk aðstoða hana við að stýra leikjum og afþreyingu fyrir nemendur skólans. Aðstaða skólavina er Vinakot sem er staðsett á leikvelli skólans við Ösp.

Þau í Vinakoti hafa haft til umráða þrjá hjólabíla sem nemendur nota í frímínútum í leik og til að hjálpa nemendum að auka hreyfigetu sína. Þar sem hjólabílarnir eru orðnir 30 ára gamlir og þarfnast yfirhalningar þá var ákveðið að leita til Ævars Ingólfssonar hjá Toyota í Reykjanesbæ sem gaf hjólabílana á sínum tíma um hvort hann væri tilbúinn að láta laga hjólabílana sem hann tók jákvætt í.

Ævar setti sig í samband við æskufélaga sinn, Helga Rafnsson hjá Rafholti en þeir voru báðir nemendur í Njarðvíkurskóla á sínum tíma og ákváðu þeir að gera vel við nemendur í Njarðvíkurskóla, þar sem þeir eiga svo hlýjar og góðar minningar frá skólanum.

Þeir ákváðu að gefa Njarðvíkurskóla sex nýja hjólabíla og erum við heldur betur þakklát fyrir þessa veglegu gjöf.

Það ríkti mikil gleði á meðal nemenda í frímínútum föstudaginn 17. febrúar þegar þeir afhentu hjólabílana sem eiga eftir að nýtast nemendum Njarðvíkurskóla vel næstu 30 árin.

Starfsfólk og nemendur Njarðvíkurskóla þakkar kærlega fyrir þessa frábæru gjöf.

Umsjónarmaður skólavina verkefnisins er Sjöfn Sóley Guðlaugsdóttir.