Göngum í skólann

Verkefnið Göngum í skólann var sett í 15. sinn þann 8. september  og tekur Njarðvíkurskóli þátt líkt og undanfarin ár, en verkefninu lýkur svo formlega með alþjóðlega Göngum í skólann deginum þann 6. október. Markmið verkefnisins er að hvetja börn til að tileinka sér virkan ferðamáta í og úr skóla og auka færni þeirra til að ferðast á öruggan hátt í umferðinni.    

Ein einfaldasta leiðin til að auka hreyfingu í daglegu lífi er að velja virkan ferðamáta, svo sem göngu, hjólreiðar, hlaup, línuskauta, hjólabretti eða annað. Ávinningurinn er ekki aðeins bundinn við andlega og líkamlega vellíðan heldur er þetta einnig umhverfisvæn og hagkvæm leið til að komast á milli staða.  

Njarðvíkurskóli er heilsueflandi grunnskóli og  og með þátttöku okkar í verkefninu Göngum í skólann viljum við hvetja bæði nemendur og starfsfólk til að nýta tækifærið og fara ferða sinna sem oftast gangandi eða hjólandi í skólann.  Við leggjum áherslu á öryggi nemenda í umferðinni og mikilvægi þess að nota hjálma þegar ferðast er um á hjólum. 

Vonandi gengur þetta vel hjá okkur. Verum endilega opin fyrir þessu og jákvæð og nýtum haustið til að vekja athygli á hreyfingu og öryggi barna okkar á leiðinni í skólann og fylgja eftir þáttum í heilsustefnu Njarðvíkurskóla þar sem lögð er áhersla á að hvetja nemendur og starfsfólk til að nota virkan ferðamáta til og frá skóla.