Heilsa og lífskjör nemenda í Njarðvíkurskóla í innlendum samanburði

Rannsóknin Heilsa og lífskjör skólanema er íslenskur hluti alþjóðlegs verkefnis sem unnið er að tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (WHO) og nefnist Health Behaviour in Schoolaged Children (HBSC). Þetta er ein viðamesta rannsókn samtímans á sviði heilsu og heilsutengdrar hegðunar ungs fólks. Um 44 lönd tóku þátt í þeirri fyrirlögn sem fram fór árið 2018. Meginmarkmiðið er að auka þekkingu og skilning á heilsu og lífskjörum ungs fólks. Viðfangsefni rannsóknarinnar eru víðtæk en meðal annars er spurt um lífstíl, næringu, matmálstíma, hreyfingu, tómstundir, slys, tannhirðu, líðan, félagsleg tengsl og umhverfi nemenda auk þess sem spurt er um ýmsa áhættuhegðun. Þátttaka Íslands í þessari alþjóðlegu rannsókn mun efla og styrkja til muna störf fræðimanna og fólks sem vinnur að forvörnum ungs fólks.

Rannsóknastofa í tómstundafræðum við Menntavísindasvið Háskóla Íslands stendur fyrir framkvæmd rannsóknarinnar og fær til þess styrk frá Lýðheilsusjóði. Þóroddur Bjarnason prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri stýrði rannsókninni frá árinu 2005 til 2013 en nú hefur Ársæll Arnarsson prófessor við Menntavísindavið H.Í. tekið við keflinu. Jafnframt taka á fjórða tug sérfræðinga og háskólanema virkan þátt í verkefninu. Stærstan þátt eiga þó kennarar og skólastjórar þeirra skóla sem lögðu spurningalistana fyrir og að sjálfsögðu þeir nemendur sem gáfu sér tíma til að fylla þá út. Fyrirlögnin gekk mjög vel alls staðar á landinu og er það ekki síst að þakka velvilja og stuðningi skólafólks. Alls svöruðu því 7.159 nemendur á landinu öllu.

Í viðhengi er hægt að sjá niðurstöður frá Njarðvíkurskóla sem eru bornar saman við niðurstöður landsins alls og höfuðborgarsvæðisins. Við túlkun gagna þarf alltaf að hafa í huga að þegar einn skóli er borinn saman við heildina liggja ekki mörg svör til grundvallar. En samst sem áður eru tölurnar upplýsandi fyrir Njarðvíkurskóla og hjálpar til við að gera gott skólastarf enn betra.

Skýrslan