Ytra mat Njarðvíkurskóla

Starf Njarðvíkurskóla var nýlega metið með ytra mati. Matið unnu matsmenn á vegum Menntamálastofnunar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Matið er fyrst og fremst til að styðja skóla við að auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum. Tilgangur matsins er einnig að afla upplýsinga um skólastarf, árangur þess og þróun fyrir fræðsluyfirvöld, starfsfólk skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemendur. Matið er til að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla.

Í upphafi skýrslu sem skólinn hefur fengið eru settar fram helstu niðurstöður sem „punktar“ um helstu styrkleika í þeim þáttum skólastarfs sem metnir voru og einnig hvar væru tækifæri til umbóta. Hér á eftir kemur sú niðurstaða:

Stjórnun
Styrkleikar
- Starfsáætlun uppfyllir viðmið aðalnámskrár og er birt á heimasíðu.
- Stjórnendur stuðla að samhljómi meðal kennara, starfsmanna, nemenda og foreldra um stefnu og starfshætti og sjá til þess að stefnan skili sér í daglegu starfi með nemendum.
- Stefna skólans er endurskoðuð reglulega með það að markmiði að efla starf skólans.
- Stjórnendur leggja áherslu á það jákvæða í skólastarfinu í öllum fréttaflutningi frá skóla og í daglegu tali.
- Í Skólapúlsi kemur fram að starfsánægja og starfsandi innan skólans er umtalsvert meiri en í öðrum skólum sem taka þátt.
- Stjórnendur skólans hafa miklar væntingar til náms nemenda og hvetja kennara til að vera stöðugt að þróa kennsluhætti sína og bæta gæði náms fyrir alla nemendur.
- Stjórnendur stuðla að markvissri starfsþróun kennara og starfsfólks, bæði formlega og óformlega.
- Stjórnendur fylgjast með og sjá um að niðurstöður ytra gæðamats, svo sem varðandi framfarir nemenda og líðan þeirra, séu nýttar til að efla starf skólans.
- Fundaskipulag er skilmerkilegt og er birt fyrir hverja önn í starfsáætlun og er öllum starfsmönnum ljóst.
- Stjórnendur byggja upp jákvæð tengsl við foreldrasamfélagið, formlega og óformlega.
- Samskipti við foreldra eru góð og gagnvirk og beinast að því að styrkja nám og vellíðan nemenda í skólanum.
- Nemendafélagið fundar minnst einu sinni á skólaárinu með skólaráði.
- Sátt er um stjórn skólans og störf stjórnenda farsæl.
- Daglegt starf er vel skipulagt og ef ágreiningur kemur upp er hann leystur fljótt og vel.
- Stjórnendur eru mjög sýnilegir í skólastarfinu og veita starfsmönnum og nemendum hrós þegar við á.
- Stjórnendur skólans stýra innleiðingu umbótaverkefna af þekkingu og skilningi á breytingaferli.
- Stjórnendur dreifa ábyrgð og gefa starfshópum skýr skilaboð um umboð og ábyrgð.
- Verkaskipting stjórnenda er skráð og öllum ljós.

Tækifæri til umbóta
- Setja fram sýnilega heilsustefnu fyrir starfsmenn skólans og framfylgja henni.
- Tryggja að nemendafulltrúar í skólaráði sitji í ráðinu til tveggja ára.
- Fylgja því eftir að skólaráðið haldi opinn fund fyrir skólasamfélagið eins og reglugerð nr. 1157/2008 kveður á um.
- Huga að, markvissum möguleikum á handleiðslu fyrir starfsmenn.
- Gera starfslýsingar fyrir alla starfsmenn og birta á einum stað.
- Sjá til þess að foreldrafélag og nemendafélag setji sér starfsáætlun.

Nám og kennsla
Styrkleikar
- Einkunnarorð skólans eru sýnileg í starfi skólans og umhverfinu.
- Námsvísar innihalda markmið og viðmið um hæfni með stigvaxandi kröfum og samfellu í námi nemenda.
- Reglulega er fylgst með árangri allra nemenda og hann skráður af kennurum.
- Farið er sameiginlega yfir niðurstöður samræmdra prófa og brugðist við niðurstöðum.
- Mikil og öflug vinna er í gangi varðandi lestur í skólanum og eru niðurstöður skimana markvisst nýttar til að setja upp lestraráætlun fyrir þá nemendur sem eru undir viðmiðum.
- Mikil ánægja er með agastefnu skólans.
- Góð upplýsingagjöf er frá umsjónarkennara til foreldra og nemenda um stöðu náms og framfarir.
- Vel er fylgst með líðan nemenda og brugðist við ef í ljós kemur að hún er ekki góð.
- Nemendur sýna námi sínu áhuga og eru virkir í kennslustundum.
- Samskipti í skólasamfélaginu eru afar jákvæð og einkennast af virðingu.
- Nemendur fá tækifæri til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri á fundum, t.d lýðræðisfundum.

Tækifæri til umbóta
- Koma þarf fram í bekkjarnámskrám og kennsluáætlunum hvernig námsaðlögun er háttað.
- Virða virkan námstíma nemenda þannig að skerðing verði ekki á kennslustundum í tengslum við íþrótta- og sundtíma.
- Stuðningur mætti vera fjölbreyttari og fara meira fram í námshópi nemandans.
- Skrá markmið kennslustunda og verkefna í kennsluáætlanir og gera nemendum grein fyrir þeim markmiðum.
- Huga þarf að leiðum til að bæta árangur í íslensku og stærðfræði á unglingastigi.
- Huga þarf að fjölbreyttari kennsluháttum.
- Auka má samvinnu og samstarf nemenda.
- Gæta þarf að tími í list- og verkgreinum nái viðmiðum aðalnámskrár.
- Gefa nemendum meira val um námsstíl.
- Skólahúsnæðið er orðið of lítið og er að hluta til hamlandi hvað varðar þróun kennsluhátta.

Innra mat
Styrkleikar
- Litið er á framkvæmd innra mats og umbætur í kjölfar þess sem mikilvægan þátt í skólastarfinu.
- Sjálfsmatsskýrsla liðins árs er til staðar.
- Við öflun gagna er leitað eftir sjónarmiðum þeirra hagsmunaaðila sem hlut eiga að máli.
- Mat á námi nemenda og framförum fer fram reglulega.
- Skólinn leggur fram formlegt mat á kennslu og fagmennsku kennara.
- Skólinn leggur mat á viðburði í skólastarfinu.
- Niðurstöður innra mats eru markvisst kynntar fyrir starfsmönnum og foreldrum.
- Umbótaáætlun er til staðar og umbótum er kerfisbundið fylgt eftir.

Tækifæri til umbóta
- Útbúa langtímaáætlun fyrir innra mat og birta.
- Skipa innramatsteymi með þátttöku fulltrúa allra hagsmunaaðila.
- Virkja betur skólaráðið, við ákvarðanatöku um innra mat.
- Setja fram á skýran hátt, hvernig markmið um árangur sem metinn er hefur náðst.
- Kynna niðurstöður kannana og innra mats fyrir nemendum.

Nám án aðgreiningar
Styrkleikar
- Allir nemendur eru velkomnir í skólann.
- Sýnilegt er í skólanum að hann þjónar margbreytilegum hópi einstaklinga.
- Það er viðurkennt og virt að nemendur hafi ólík markmið.
- Gagnkvæm virðing ríkir meðal aðila skólasamfélagsins.
- Unnið er eftir skýru verklagi með greiningum og skimunum til að meta þörf nemanda fyrir sérkennslu og stuðning.
- Kennarar hafa aðgang að margvíslegum björgum, meðal annarra ráðgjöf og þverfaglegri aðstoð annarra sérfræðinga, t.d. frá fræðsluskrifstofunni.
- Teymisfundir um málefni einstakra nemenda eru reglulegir og meðal annars notaðir til að meta framvindu samkvæmt einstaklingsnámskrá.
- Lausnateymi er starfandi við skólann og veitir kennurum og öðru starfsfólki skólans ráðgjöf vegna vanda sem upp getur komið í kennslu og samskiptum.
- Unnið er eftir skráðu skipulagi um samskipti við leikskóla vegna nemenda sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda.
- Stjórnandi sérkennslu heldur reglulega fundi með þeim sem sinna stuðningi og sérkennslu.
- Viðeigandi gögn og upplýsingar fylgja nemendum frá grunnskóla í framhaldsskóla.
- Móttökuáætlun fyrir nemendur með sérþarfir er hluti af skólanámskrá og birt á heimasíðu.
- Allir nemendur hafa sömu tækifæri til þátttöku í ferðum og viðburðum á vegum skólans.
- Þróunarverkefnið Allir konfektmolarnir eflir samstarf Aspar og grunnskólans.

Tækifæri til umbóta
- Móta þarf og birta á heimasíðu starfsreglur um meðferð mála sem berast frá foreldrum, m.a. um verklag, samstarf og málshraða.
- Gera þarf heildaráætlun um skipulag sértaks stuðnings.
- Virkja foreldra og nemendur við gerð einstaklingsáætlana.
- Gæta þarf þess að kennarar Aspar og grunnskólans beri sameiginlega ábyrgð á nemendum sem koma úr Ösp í kennslustund í heimabekk.
- Leitast við að veita sérkennslu og stuðning í meira mæli í námshópi nemenda.
- Leggja áherslu á samræðu og samstarf nemenda í námi.
- Gæta þarf að því að stuðningur sé í öllum tilvikum markviss og nýtist nemendum.

Lokaskýrslan - smellið hérna