03.02.2020
Í dag fengu nemendur í 6. bekk kennslu frá skólahjúkrunarfræðingi í endurlífgun. Fræðslan fjallaði um mikilvægi þess að temja sér rétt viðbrögð við hjartastoppi en þau felast m.a. í því að kanna áreiti, hringja á hjálp, opna öndunarveg og athuga með öndun og loks hjartahnoð. Farið var í hvern lið og endað á verklegri æfingu þar sem nemendur fengu að æfa sig á þar til gerðum æfingadúkkum
.
Foreldrar eru hvattir til að spyrja börnin sín út í fræðsluna og biðja þau að kenna sér réttu handtökin. Þannig fá þeir vonandi góða upprifjun og þekkingin festist enn betur í minni barnanna. Með þessu móti getum við margfaldað áhrif kennslunnar. Eins minnum við á skyndihjálparapp Rauða krossins og vefinn www.skyndihjálp.is. Þar er m.a. hægt að taka 2ja klst. ókeypis vefnámskeið í skyndihjálp sem við mælum eindregið með að allir gefi sér tíma til þess að taka, sem og auðvitað að fara reglulega á námskeið til þess að læra eða halda við verklegri þjálfun.
Lesa meira
03.02.2020
Þorgrímur Þráinsson heimsótti í dag nemendur í 8.HG, sem eru allt stúlkur, og las upp úr óútgefinni bók sem fjallar meðal annars um vinina Máney og Sóla. Stúlkurnar voru mjög spenntar yfir upplestrinum og öllu sem Þorgrímur ræddi um. Í lokin gaf hann öllum áritaðar bækur þar sem hann lagði áherslu á að lestur og góður orðafroði væri lykillinn að góðum árangri í lífinu.
Njarðvíkurskóli þakkar Þorgími kærlega fyrir komuna. Hann náði mjög vel til stúlknanna, sem voru gífurlega ánægðar með heimsóknina og bókagjöfina.
Lesa meira
29.01.2020
Samtalsdagur er fimmtudaginn 6. febrúar. Þá mæta nemendur með foreldrum/forráðamönnum til viðtals við umsjónarkennara. Fag-, list- og verkgreinakennarar eru einnig til viðtals í sínum heimastofum þennan dag. Í viðtalinu verður farið yfir það námsmat sem lokið er á skólaárinu auk annars.
Bókun viðtala fer fram í gegnum Mentor eins og í haust þannig að foreldrar geta sjálfir bókað viðtal á þeim tíma sem hentar þeim best. Leiðbeiningar fyrir bókun viðtala má sjá hér í myndbandi frá Mentor https://www.youtube.com/watch?v=mEFYnJhJAsM
Opnað verður fyrir bókanir á miðnætti 30. janúar og lokað verður fyrir bókanir á miðnætti 5. febrúar. Ef foreldrar bóka ekki tíma sjálfir þá sér umsjónarkennari um að bóka tíma fyrir þá og sendir tölvupóst heim því til staðfestingar.
Foreldrar nemenda í 3., 6. og 9 bekk svara viðhorfskönnun á sal eftir viðtalið og biðjum við þá foreldra um að staldra við og svara. Niðurstöður viðhorfskönnunar eru mikilvægur hluti í sjálfsmati skóla og við notum ykkar svör til að gera gott skólastarf enn betra.
Frístundaheimili skólans er opið á samskiptadaginn, bæði í skóla sem og Ösp frá kl. 8:15-16:15.
Lesa meira
28.01.2020
Í haust hlaut Njarðvíkurskóli styrk úr sjóðnum Forritarar framtíðarinnar. Forritarar framtíðarinnar er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla og auka áhuga á forritun og hagnýtingu á tækni í skólum landsins. Njarðvíkurskóli fékk námskeiðsstyrk til forritunar- og tæknikennslu.
Njarðvíkurskóli nýtir styrkinn til að efla starfsmenn og nemendur í forritun. Úlfur Atlason verkefnastjóri og Gunnhildur Fríða Hallgrímsdóttir frá Skema hjá Háskólanum í Reykjavík voru með námskeið fyrir starfsmenn á starfsdeginum í gær. Þar fengu starfsmenn þjálfun í forritun sem þeir geta svo nýtt í framhaldi fyrir okkar nemendur. Lögð var áhersla á að sérsníða námskeiðin að búnaðinum sem við eigum í skólanum og var mikil ánægja með námskeiðin.
Í framhaldi mun Úlfur og Gunnhildur koma inn í nokkur skipti í kennslu hjá 5. og 6. bekk með forritunarkennslu þar sem kennarar og stuðningsfulltrúar munu taka virkan þátt í kennslustundinni og fá jafnhliða nemendum þjálfun í forritun.
Lesa meira
23.01.2020
Mánudaginn 27. janúar er starfsdagur í Njarðvíkurskóla. Allir nemendur eiga frí þennan dag. Frístundaheimili yngri nemenda og frístund í Ösp er lokað þennan dag.
Monday 27th. of January is a teachers work day in Njardvikurskoli. All students have a vacation this day. The after school program is closed this day.
Poniedzialek 27. Styczen jest dniem pracy nauczyciela w Njardvikurskoli. Wszyscy studenci maja wakacje tego dnia. Program zajec pozalekcyjnych jest dzis zamkniety.
Lesa meira
22.01.2020
Gott samstarf er á milli leikskólans Gimli og Njarðvíkurskóla. Tilgangurinn með samstarfinu er að auðvelda börnum þá breytingu sem verður á lífi þeirra þegar þau fara úr leikskóla í grunnskóla. Í morgun fór 1.HT í heimsókn á Gimli og borðuðu morgunverð með leikskólanemendum, æfðu lestur og fórum í val.
Lesa meira
21.01.2020
Nemendur í 6. bekk hafa í vetur verið í námsefni tengdu mannslíkamanum. Nemendur fengu að spreyta sig sig á verklegum æfingum þegar þau krufu ýmis líffæri úr svínum. Ástæðan fryr því að lífverur og líffæri eru skoðuð í kennslu er til að gera nemendum kleift að tengja saman það sem þau lesa, við raunveruleikann. Skoðuð voru líffæri úr svíni vegna þess hversu lík þau eru líffærum mannsins. Nemendur voru almennt ánægðir með tímann og tóku virkan þátt.
Lesa meira
19.01.2020
Umhverfisdagur Njarðvíkurskóla var haldinn föstudaginn 17. janúar. Þetta er í fyrsta sinn sem Njarðvíkurskóli heldur umhverfisdag, en dagurinn var tileinkaður umhverfismálum. Í Njarðvíkurskóla er umhverfisteymi nemenda og í haust kom sú hugmynd frá nemendum í 6.-10. bekk að lyfta umhverfismálum hátt undir höfði.
Nemendur í 1.-6. bekk fengu fræðslu um flokkun úrgangs frá Kölku sorpeyðingarstöðvar. Nemendur fræddust um mikilvægi flokkunar, endurnýtingar og endurvinnslu. Önundur Jónasson, stjórnarformaður Kölku, svaraði spurningum frá nemendum og góðar umræður áttu sér stað. Afrakstur dagsins hjá nemendum í 1.-6. bekk voru myndbönd þar sem nemendur ákváðu hvað þeir geti gert til að bjarga jörðinni.
Í 7.-10. bekk byrjaði dagurinn á kaffihúsafundi þar sem nemendur ræddu stöðu umhverfismála bæði í nærsamfélaginu og almennt í heiminum. Þá flutti Berglind Ásgerisdóttir frá umhverfismiðstöð Reykjanesbæjar erindi um það hvað Reykjanesbær er að gera og stefnir á að gera í umhverfismálum. Að lokum ræddu nemendur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig væri hægt að nýta þau markvisst í skólastarfi.
Dagurinn fór vel fram og voru nemendur virkir og duglegir í vinnu dagsins
Lesa meira
10.01.2020
Á dögunum fékk sérdeildin Ösp við Njarðvíkurskóla veglega gjöf frá bílaleigunni Blue car rental. Magnús Þorsteinsson, Guðrún Sædal Björgvinsdóttir og Þorsteinn Þorsteinsson komu færandi hendi og gáfu nemendum, húfu, vettlinga og spjaldtölvur sem þeir munu hafa aðgang að í Ösp.
Njarðvíkurskóli þakkar kærlega fyrir þessa velvild og það er ómetanlegt að hafa slíka góðvild í skólasamfélaginu okkar.
Lesa meira
09.01.2020
Starf Njarðvíkurskóla var nýlega metið með ytra mati. Matið unnu matsmenn á vegum Menntamálastofnunar fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga. Matið er fyrst og fremst til að styðja skóla við að auka gæði náms og skólastarfs og stuðla að umbótum. Tilgangur matsins er einnig að afla upplýsinga um skólastarf, árangur þess og þróun fyrir fræðsluyfirvöld, starfsfólk skóla, viðtökuskóla, foreldra og nemendur. Matið er til að tryggja að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrár grunnskóla.
Lesa meira